FréttirSkrá á póstlista

12.08.2014

Fínasta veiði í allt sumar

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK er nú á landleið með um 110 til 115 tonna afla af Vestfjarðamiðum. Er rætt var við Eirík Jónsson skipstjóra fyrr í dag var skipið statt vestur af Barðanum og áætlaður komutími til Reykjavíkur er snemma í fyrramálið.

,,Það er búin að vera fínasta veiði í allt sumar en maður finnur að þorskurinn er aðeins farinn að gefa eftir á Vestfjarðamiðum og karfaveiðin sömuleiðis. Menn áttu alveg von á því að karfaveiðin drægist saman þegar kæmi fram í ágúst líkt og gerðist í fyrrasumar. Það er hins vegar enn nóg af ufsa á miðunum og það er í samræmi við væntingar,“ segir Eiríkur.

Í veiðiferðinni á undan var einnig farið á Vestfjarðamið og þá fengust um 240 tonn á sex dögum.
,,Við tókum svokallaða millilöndun á Ísafirði á sunnudeginum um verslunarmannahelgina og lönduðum þá fullfermi eða nálægt 130 tonnum. Við fengum svo um 90 tonn til viðbótar dagana á eftir og þeim afla var landað í Reykjavík sl. fimmtudag.“

Líkt og tveir aðrir ísfisktogarar HB Granda, Ásbjörn RE og Ottó N. Þorláksson RE, fór Sturlaugur á makrílveiðar í sumar. Eiríkur skipstjóri að þær hafi gengið vel og alls fengust um 180 til 190 tonn af makríl í þremur veiðiferðum. Aflanum var ekið til Vopnafjarðar þar sem hann fór í vinnslu hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda.

Dyneema togtaugar í stað togvíra

Í næstu veiðiferð Sturlaugs, sem væntanlega verður farin fyrir helgi, verður sú nýbreytni á að í stað hefðbundinna togvíra verða notaðar Dyneema togtaugar frá Hampiðjunni. Togskipið Vestmannaey hefur notað slíkar taugar með góðum árangri undanfarin ár og Eiríkur segir það vera spennandi að sjá hvaða árangri þessi breyting kann að skila.

,,Dyneema togtaugarnar eru helmingi léttari en togvírarnir og menn eru að vona að það skili léttari drætti, minni olíukostnaði og aukinni endingu. Viðhaldskostnaður gæti sömuleiðis dregist saman þar sem að togtaugarnar eru mun léttari á spilunum en togvírarnir,“ segir Eiríkur Jónsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir