FréttirSkrá á póstlista

11.08.2014

Mikil ánægja með fjölskyldudag HB Granda í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Fjölskyldudagur HB Granda var haldinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal í gær í besta veðri. Á sjöunda hundrað manns tóku þátt og er það mál manna að einstaklega vel hafi til tekist.

Að sögn Sæmundar Árna Hermannssonar, verkefnastjóra hjá HB Granda, voru hvort tveggja þátttaka og veður framar vonum. Boðið var upp á grillaðar pylsur og ís fyrir þá sem vildu en ísbíll var á staðnum. Þá fengu börnin blöðrur en tveir ungir blöðrulistamenn sáu um að snúa blöðrurnar saman eftir óskum barnanna.

Þriggja ára samstarfssamningur
Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, sér um fiska- og seladeildina í garðinum og hann segir að nýlega hafi verið undirritaður þriggja ára samstarfssamningur við HB Granda um útvegun á fóðri fyrir fiska og seli.

,,Við höfum áður átt gott samstarf við HB Granda en með þessum nýja samningi er tryggt að við höfum greiðan aðgang að hráefni af hæstu gæðum og getum náð í það í frystigeymsluna Ísbjörninn á Grandagarði þegar þörf krefur. Fóðurþörfin er um fimm tonn á ári. Uppistaðan í fóðrinu er síld en einnig fáum við loðnu og annan uppsjávarfisk. Með þessu móti eru hagsmunir fiska og dýra hafðir að leiðarljósi en við höfum lent í því í áranna rás að erfiðlega hefur gengið að útvega nægilega ferska síld fyrir selina. Þeir eru matvandir og ættu að vera öruggir um að fá aðeins síld af úrvalsgæðum næstu árin,“ segir Þorkell.

Ekki er óalgengt að hin ýmsu fyrirtæki efni til fjölskyldudags í Laugardalnum og Þorkell segir að skipulagningin hjá HB Granda hafi verið til fyrirmyndar.

,,Starfsfólkið hafði orð á þessu við mig eftir daginn og heilt yfir held ég að þessi fjölskyldudagur hafi heppnast eins og best verður á kosið,“ segir Þorkell Heiðarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir