FréttirSkrá á póstlista

08.08.2014

Mokveiði á karfa á Halanum í sumar

,,Við vorum tæpa fjóra sólarhringa í veiðiferðinni og aflinn var um 185 tonn. Það samsvarar 650 körum eða því sem lestin rúmar. Af þessum afla voru um 15 tonn af þorski en hitt voru ufsi og karfi svo að segja til helminga.“

Þetta segir Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, en skipið kom til hafnar í Reykjavík sl. þriðjudagsmorgun eftir góða veiðiferð á Vestfjarðamið.

,,Við hófum veiðarnar á Halanum og þar fengum við ufsa og örlítið af þorski. Við enduðum svo á karfaveiðum í Víkurálnum. Það er búin að vera mokveiði á karfa á Halanum í allt sumar en eins og í fyrra er karfinn farinn að gefa eftir á þessum miðum þegar komið er fram í ágúst. Ufsaveiðin á Halanum hefur undanfarin ár haldist út ágústmánuð og við erum að vona að svo verði einnig nú,“ segir Eiríkur.

Að sögn skipstjórans er greinilegt að kvótaárið er senn á enda og kvótastaða margra skipa í bolfiski er á þrotum. Þá hafa frystitogarar og ísfisktogarar verið á makrílveiðum í sumar og það hefur dregið úr sókninni á Vestfjarðamiðum nú þegar kvótaárið er senn á enda.

,,Það var afskaplega fáliðað á miðunum og yfirleitt voru þetta ekki meira en tvö til þrjú skip sem voru að veiðum í einu. Ég á von á því að við verðum á þessum miðum út kvótaárið og eins og veiðin hefur verið þá er hagkvæmt að sækja fisk á Vestfjarðamið,“ segir Eiríkur Ragnarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir