FréttirSkrá á póstlista

07.08.2014

Mjög góð makrílveiði og stór og fallegur fiskur

Ingunn AK kom til Vopnafjarðar upp úr miðnætti sl. nótt með um 430 tonn af makríl. Aflinn fékkst í tveimur stuttum holum á svæðinu frá Litladjúpi og upp á grunnið í Breiðamerkurdjúpi.

,,Við vorum sennilega ekki nema fimm til sex tíma að fá þennan afla. Lóðningar voru góðar og ef þetta helst svona þá eru horfurnar góðar. Samkvæmt prufum er makríllinn allur 400 grömm eða stærri og meðalvigtin er um 420 til 440 grömm. Það er töluvert um 500 til 600 gramma makríl, sem fer allur í heilfrystingu, og það góða er að það er sáralítil áta í fisknum,“ segir Róbert Axelsson sem var skipstjóri í veiðiferðinni.

Töluvert er af skipum á veiðislóðinni fyrir austan og enn sem komið er hefur lítið fengist af síld með makrílnum. Róbert segist ekki vita til þess að nokkuð skip sé komið á beinar síldveiðar og fyrir vikið er megnið af norsk-íslenska síldarkvótanum enn óveitt.

,,Á vertíðinni í fyrra fengum við megnið af okkar síldarafla á svæðinu frá því norðan við Langanes og suður um með austurströndinni,“ segir Róbert Axelsson.
Af hinum tveimur uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að frétta að vonast var til að löndun úr Faxa RE lyki á Vopnafirði í morgun en Lundey NS er á miðunum undan SA-landi. Nú eru óveidd rúmlega 8.000 tonn af makrílkvóta skipa HB Granda ef afli Ingunnar er talinn með.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir