FréttirSkrá á póstlista

06.08.2014

Mikil umsvif á Vopnafirði

Um 1.200 tonnum af frystum afurðum var skipað út frá Vopnafirði í byrjun vikunnar og fyrirhuguð er önnur útskipun um næstu helgi að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum.
,,Flutningaskipið Silver Lake fór héðan í gær og í lok vikunnar eigum við von á öðru skipi. Að þessu sinni voru það frystur makríll, síld og loðna sem send voru utan,“ segir Magnús en samkvæmt upplýsingum hans hefur verið mikið annríki í vinnslunni allt frá 4. júlí sl.

,,Hér hefur verið unnið á vöktum allan sólarhringinn og vinnslan hefur aðeins verið stöðvuð til þess að sinna nauðsynlegum þrifum,“ segir Magnús en er við sóttum hann heim var Ingunn AK nýkomin til hafnar með makrílafla og Faxi RE var nýfarinn úr höfn. Lundey NS var þá á miðunum.

Að sögn Magnúsar hefur verið lítið af síld með makrílnum sem auðveldað hefur alla flokkun.
,,Við heilfrystum stærsta makrílinn í blástursfrysti en sá smærri er hausskorinn og slógdreginn og frystur í pönnum í frystiskápum. Auk afla uppsjávarskipanna okkar þá höfum við einnig séð um vinnslu á hluta af afla ísfisktogaranna. Sá makríll er, að mér finnst, heldur smærri en sá sem veiðist hér fyrir austan en þetta er fiskur af úrvalsgæðum,“ segir Magnús Róbertsson.

Nú vinna um 135 manns í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði og í fiskmjölsverksmiðju eru að jafnaði 12 til 14 manns.

Nánari upplýsingar er að finna á Hátíð Hafsins

Nýjustu fréttir

Allar fréttir