FréttirSkrá á póstlista

31.07.2014

Velheppnuð grillhátíð í frábæru veðri

Árleg grillhátíð HB Granda fyrir starfsmenn félagsins í Reykjavík var haldin í hádeginu í gær í frábæru veðri. Veisluborðunum var komið fyrir við umhverfislistaverkið Þúfa, sem stendur við austurgafl nýju frystiskemmunnar, en þaðan er frábært útsýni yfir hafnarsvæðið.

Að sögn Arnbjörns Arasonar, sem sér um rekstur mötuneytis HB Granda á Norðurgarði, lætur nærri að um 350 manns hafi tekið þátt í grillveislunni að þessu sinni.

,,Það komu fleiri en við áttum von á og hér voru margir starfsmenn, sem eru í sumarleyfi, með fjölskyldur sínar. Við vorum búnir að gera ráð fyrir 300 manns í mat en síðan var bætt við 100 diskum. Þrátt fyrir þennan fjölda heppnaðist grillveislan fullkomlega og veðrið átti þar stóran hlut að máli,“ segir Arnbjörn.

Að þessu sinni var boðið upp á grillaðar, beinlausar grísakótilettur, grísahnakka, lambalæri og pylsur. Meðlæti var kartöflusalat, hrásalat og grillaður maís og fram með matnum var borin fram skógarsveppasósa. Fjórir starfsmenn úr mötuneytinu stóðu vaktina í grillveislunni en um uppsetningu á borðum og stólum, auk þriggja stórra grilla, sáu Garðar Garðarsson vélstjóri og hans fólk.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir