FréttirSkrá á póstlista

25.07.2014

Róleg veiði en góður makríll

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom til hafnar í dag eftir makrílveiðar sunnan við Reykjanes og var aflinn um 45 tonn í tveggja daga veiðiferð. Að sögn Magnúsar Kristjánssonar, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, var frekar rólegt yfir aflabrögðunum en makríllinn, sem fékkst, er stór og góður.

,,Við hófum veiðar á miðvikudagskvöld og vorum að veiðum suður af Reykjanesi. Þar hefur fjöldi skipa verið að makrílveiðum en auk togaranna er hluti uppsjávarflotans þar og flest vinnsluskipin,“ segir Magnús en í máli hans kemur fram að aflabrögðin séu mjög mismunandi á milli skipa og það helgist fyrst og fremst af stærð veiðarfæranna sem notuð eru.

,,Við erum með lítið uppsjávartroll með um 20 faðma höfuðlínuhæð en flest stærri skipin eru með helmingi stærri troll eða rúmlega það. 40 til 50 faðma höfuðlínuhæð á trollunum er ekki óalgeng hjá þeim,“ segir Magnús en hann kveður makrílinn aðallega veiðast frá yfirborðinu og niður á um 20 faðma dýpi. Makríllinn er, sem fyrr segir, stór og góður og Magnús segir að mikið af aflanum sé fiskur í kringum 600 grömm að þyngd. Aflanum verður ekið til vinnslu í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði en stefnt er að því að Sturlaugur H. Böðvarsson haldi aftur til veiða um kl. 18 í dag.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir