FréttirSkrá á póstlista

23.07.2014

Millilandanir spara fé og fyrirhöfn

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú á leið til Ísafjarðar með tæplega 80 tonna afla sem fékkst á Vestfjarðamiðum á um tveimur sólarhringum. Þetta er önnur millilöndunin í yfirstandandi veiðiferð því sl. sunnudag kom togarinn til hafnar á Ísafirði með um 90 tonna afla.

,,Við fórum frá Reykjavík sl. fimmtudag og hófum veiðar í Reykjafjarðarálnum. Veiði þar var þá dottin niður þannig að við færðum okkur vestur í Þverál og síðan á Halann og þar höfum við verið að veiðum,“ segir Friðleifur Einarsson skipstjóri en að hans sögn breyta millilandanirnar á Ísafirði miklu fyrir úthaldið.

,,Þetta er allt annað líf. Það tekur okkur um átta tíma að sigla til Ísafjarðar en ef farið væri til Reykjavíkur með aflann þá tæki það okkur um 20 tíma með tilheyrandi olíukostnaði.“
Að löndun lokinni á Ísafirði fer Ásbjörn aftur til veiða á Vestfjarðamiðum og samkvæmt áætlun á skipið að vera í höfn í Reykjavík nk. mánudagsmorgun.

,,Aflabrögðin hafa verið góð. Uppistaðan í aflanum er þorskur en við höfum einnig fengið þó nokkuð af karfa og ufsa. Hér hefur verið fínasta ufsaveiði af og til og stærðin á ufsanum er mjög góð. Við höfum ekki orðið varir við ýsu í túrnum og það er vel því kvótinn er ekki stór eins og allir vita,“ segir Friðleifur.

Enn, sem komið er, hefur Ásbjörn ekki farið til makrílveiða en það ætti að geta orðið fljótlega.

,,Af ísfisktogurunum hefur Ottó N. Þorláksson RE lokið við að veiða markílkvótann og ég held að Sturlaugur H. Böðvarsson AK sé nú á makrílveiðum. Þetta er ekki mikið magn sem við fáum en við megum veiða 130 tonn og stefnt er að því að taka það magn í tveimur veiðiferðum,“ segir Friðleifur Einarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir