FréttirSkrá á póstlista

17.07.2014

Gloppótt veiði en ágætur makríll

Faxi RE kom til hafnar á Vopnafirði í hádeginu í gær með um 380 tonn af makríl. Það er afraksturinn eftir tvo daga á veiðum í grunnunum út af Suð-Austurlandi. Löndunarbið var á Vopnafirði vegna norskra skipa sem þangað hafa komið með loðnuafla en Hjalti Einarsson, fyrsti stýrimaður á Faxa, reiknaði með að löndun úr skipinu gæti hafist þá um kvöldið.

,,Það var ekki mikið af skipum á miðunum út af SA landi þegar við komum þangað og tókum fyrsta holið fyrir þremur dögum. En þeim hefur fjölgað hægt og bítandi. Flest skipin eru út af Vestmannaeyjum og sunnan við Reykjanes en við metum það svo að það borgi sig ekki að sigla of langt með aflann,“ segir Hjalti en í máli hans kemur fram að veiðisvæðið út af SA landi sé frekar takmarkað þegar makrílveiðar eru annars vegar.

,,Þetta eru litlir blettir sem við erum að kasta á og þeir hverfa hratt. Stundum fær maður sáralítið en svo er aflin betri þess á milli.“

Um 12 tíma sigling er frá miðunum til Vopnafjarðar og Hjalti segir að fyrir vikið sé hráefnið ferskt, sáralítil áta sé í makrílnum og hann henti því vel til frystingar.

,,Makríllinn er reyndar af mjög blandaðri stærð en mest er þetta 330 til 340 gramma fiskur,“ segir Hjalti Einarsson.

Ingunn AK og Lundey SN eru nú að veiðum og er reiknað með því að Faxi komist að nýju til veiða um sólarhring eftir að löndun hefst.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir