FréttirSkrá á póstlista

16.07.2014

Loðnu, síld og makríl landað á Vopnafirði

Í gær var byjað að frysta loðnu úr norska skipinu H. Ostervold hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði. Þetta er þriðji loðnufarmurinn sem berst til Vopnafjarðar á þessu sumri en áður höfðu norsku skipin Storeknut og Hardhaus komið þangað með afla. Vegna mikillar átu í loðnunni í þeim förmum fór loðnan til bræðslu.

Góður gangur hefur verið í vinnslunni hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda og fiskmjölsverksmiðju félagsins á Vopnafirði síðustu dagana. Skip HB Granda hafa verið á makrílveiðum síðustu vikur og hefur síld fengist með sem aukaafli.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, hefur nú verið tekið á móti rúmlega 2.000 tonnum af makríl og rúmlega 300 tonnum af síld á sumarvertíðinni.

Á mánudagsmorgun var lokið við að vinna makríl og síld sem Ingunn AK kom með til hafnar og verið er að vinna úr farmi Lundeyjar NS. Magnús segir makrílinn nú vera betri en þann sem verið var að vinna á sama tíma í fyrra og síldin sé einnig góð.

,,Makríllinn er með um 20% fituinnihald um þessar mundir og það eru allir sammála um að gæðin séu meiri en á sama tíma í fyrra. Síld hefur veiðst sem meðafli í nokkrum veiðiferðum og þótt hún sé ekki mjög feit, þá er hún stór og góð og uppistaðan í afla skipanna hefur verið um 350 til 360 gramma fiskur,“ segir Magnús Róbertsson. Þess má geta að von er fljótlega á Faxa RE með makríl og síld til Vopnafjarðar og tvö norsk skip munu landa þar loðnu á næstunni.

Samkvæmt upplýsingum Garðars Svavarssonar, deildarstjóra uppsjávardeildar HB Granda, var skipað út um 1.200 tonnum af fiskmjöli og 700 tonnum af frystum sjávarafurðum á Vopnafirði um liðna helgi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir