FréttirSkrá á póstlista

14.07.2014

Tæplega milljón tonna öldungur kvaddur

Aflaskipið Víkingur AK 100 var nýlega selt til Grenaa í Danmörku. Þetta liðlega hálfrar aldar gamla skip lét úr höfn á Akranesi sl. föstudagskvöld og ætti það að vera komið til hafnar í Danmörku upp úr hádeginu á morgun. Að baki er langur og merkilegur ferill í íslenskri útgerðarsögu en samkvæmt heimildum HB Granda nemur afli skipsins um 970 þúsund tonnum frá því að það kom til landsins árið 1960. Þar af eru um 46 þúsund tonn af bolfiski.

Óhætt er að segja að Víkingur hafi verið vel mannaður í sinni síðustu ferð undir íslenskum fána því í brúnni voru skipstjórarnir Gunnar Gunnarson og Magnús Þorvaldsson, sem lengi sá um skipstjórn á Víkingi en hætti störfum sökum aldurs fyrir nokkrum árum. Um vélstjórnina sáu Sigurður V. Guðmundsson yfirvélstjóri og Gunnlaugur Pálmason. Auk þeirra voru með í för Haraldur Bjarnason, sem sér m.a. um þáttinn Vafrað um Vesturland á sjónvarpsstöðinni ÍNN, og Steingrímur Pétur Baldvinsson, vinur Magnúsar og gamall togarajaxl af Jóni Baldvinssyni RE.

Víkingur var smíðaður í AG Weber Werk í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 og kom skipið til landsins 21. október sama ár. Var það þá meðal stærstu og fullkomnustu fiskiskipa landsins, ásamt systurskipum sínum, Maí GK 346, Frey RE 1 og Sigurði ÍS 33 sem seinna fékk einkennisstafina RE 4 og VE 15. Af þessum skipum kom Freyr einnig við sögu hjá forverum HB Granda því hann var smíðaður fyrir Ísbjörninn hf. Víkingur hefur legið í höfn á Akranesi undanfarin ár og var skipið síðast gert út til loðnuveiða á vertíðinni 2013.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir