FréttirSkrá á póstlista

06.07.2014

Makrílveiðar frystitogaranna byrja vel

,,Þetta lítur ágætlega út. Við tókum fyrsta kastið í gær og fengum þá 12 tonn af góðum makríl eftir tveggja tíma hol. Við höfum haldið uppi fullri vinnslu og ef það heldur sem horfir þá ætti kvótinn að duga okkur fram yfir miðjan ágúst.“

Þetta sagði Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE, er rætt var við hann síðdegis í gær. Þerney var þá að veiðum út af Jökuldjúpi.

,,Flestir togaranna, sem farið hafa til makrílveiða undanfarna daga, eru nú að veiðum suður af Vestmannaeyjum en hér er aðeins einn annar togari, Málmey SK, á makrílveiðum. Mér skilst á mönnum að makríllinn, sem veiðist suður af landinu, sé smærri en sá sem við erum að fá. Meðalvigtin hjá okkur fram að þessu er 370 til 390 grömm og fiskurinn er vel haldinn og ágætlega feitur enda er hér nóg af æti fyrir hann,“ segir Kristinn Gestsson.

Tveir frystitogarar HB Granda eru nú á makrílveiðum en auk Þerneyjar er Örfirisey RE á makrílveiðum. Hvort skip um sig má veiða rúmlega 2.000 tonn af makríl í sumar og Kristinn segir að stefnt sé að því að landa aflanum vikulega. Makríllinn er heilfrystur um borð og notuð eru sérútbúin flottroll frá Hampiðjunni við veiðarnar. Ísfisktogarar HB Granda munu einnig stunda makrílveiðar í sumar en þeir nota smærri flottroll við veiðarnar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir