FréttirSkrá á póstlista

30.06.2014

14 milljarða króna fjárfesting í fimm nýjum skipum

HB Grandi er með tvö uppsjávarveiðiskip í smíðum í Celiktrans Denis Insaat skipasmíðastöðinni í Tuzla í Tyrklandi og í síðustu viku var greint frá því að gengið yrði til samninga við stöðina um smíði á þremur nýjum ísfisktogurum til viðbótar. Alls nema þessar fjárfestingar félagsins í endurnýjun skipaflotans um 14 milljörðum króna. Þar af er rúmlega helmingur upphæðarinnar vegna uppsjávarveiðiskipanna.

Þeir, sem fylgst hafa með íslenskum sjávarútvegi, vita mæta vel að íslensk fiskiskip eru komin til ára sinna og meðalaldur þeirra nú er rétt innan við 30 ár. Þótt vilji væri til þess að endurnýja flotann þá setti efnahagskreppan vissulega strik í reikninginn. Auknar álögur á sjávarútvegsfyrirtækin á uppgangstíma, og óvissan um framtíðina, drógu sömuleiðis á langinn að ráðist væri í nauðsynlegar endurbætur.

,,Tilkoma þriggja nýrra ísfisktogara felur í sér umtalsverðar framfarir,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.

,,Rekstraröryggi þriggja elstu ísfisktogara okkar fer þverrandi. Ásbjörn, sem er þeirra elstur er orðið 36 ára gamalt skip. Að meðaltali eru þessu þrjú skip 33 ára gömul. Þau eru búin að endast ótrúlega vel og skila miklum verðmætum að landi. Forsenda þess er að um þau hefur verið vel gengið og viðhaldið hefur verið í lagi. Með nýjum skipum munum við bæta vinnuaðstöðu verulega og tekur hönnun skipanna sérstaklega á að geta skilað hámarksgæðum alls afla. Olíueyðsla mun minnka umtalsvert og tekið verður sérstaklega á útblæstri,“ segir Vilhjálmur.

Þórarinn Sigurbjörnsson hefur haft eftirlit með smíði uppsjávarskipa HB Granda í Tyrklandi. Auk þess hefur hann starfað fyrir Ísfélagið í Vestmannaeyjum en í skipasmíðastöðinni er verið að ljúka við smíði á nýjum Sigurði VE. Það skip verður afhent innan skamms.

,,Héðan er það helst að frétta að það bætist rólega við fyrra skipið, sem er í smíðum fyrir HB Granda. Nú eru hliðarskrúfur komnar í skrokkinn og stór hluti af röralögnum í kælidælurýmið (RSW). Aðalvélin og rafall voru að koma hingað til Tyrklands og nú vantar bara skrúfugírinn. Karl Sigurjónsson, skipaeftirlitsmaður HB Granda, er í verksmiðju Wärtsilä í Trieste á Ítalíu til að taka hann út og ef allt gengur að óskum þá ætti skrúfugírinn að koma hingað í byrjun júlí,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson.

Nýju uppsjávarveiðiskipin eru 80 metra löng og 17 metra breið. Þau verða búin öflugri kæligetu eða 2 x 1.300.000 kcal/klst. fyrir 12 kælilestar sem eru alls 2.900 rúmmetrar. Aðalvélar eru frá Wärtsilä og eru þær 4.600 kW. Vinna við smíðina er nokkuð á eftir áætlun en að sögn Þórarins er vonast til að hægt verði að vinna þann mun upp með auknum starfsmannafjölda. Ef allt gengur að óskum ætti fyrra uppsjávarveiðiskipið að koma til landsins í mars nk.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir