FréttirSkrá á póstlista

27.06.2014

Fjörusteinninn veittur HB Granda

Umhverfisviðurkenning Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2014, Fjörusteinninn, var veitt HB Granda í dag. Í ræðu Hjálmars Sveinssonar, stjórnarformanns Faxaflóahafna, við það tækifæri kom fram að félagið væri vel að þessari viðurkenningu komið. Það hafi staðið að uppbyggingu á Norðurgarði á Grandanum í Reykjavík af miklum myndarskap og staðið fyrir ýmsum umhverfisbótum, s.s. niðurrifi á gömlum og úr sér gengnum byggingum.

Í ræðu Hjálmars kom m.a. fram að HB Grandi væri í fararbroddi þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem vinna ötullega að því að tryggja sjálfbæra nýtingu á auðlindinni. HB Grandi væri einnig aðili að félaginu Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, þar sem lögð er áhersla á að fyrirtæki axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfið.

,,Ábyrg félög eru þau sem með markvissum hætti skipuleggja starfsemi sína þannig að þau skaði ekki samfélagið og umhverfið heldur hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins,“ sagði Hjálmar en síðar í máli sínu vakti hann athygli á að á árinu 2012 var hafinn undirbúningur að byggingu frystigeymslu og flokkunaraðstöðu fyrir frosinn fisk á Norðurgarði. Í tengslum við þá skipulagningu hafi verið ákveðið í samráði við Faxaflóahafnir að halda samkeppni um umhverfislistaverk yst á Norðurgarði. Niðurstaða samkeppninnar hafi verið sú að verk Ólafar Nordal, Þúfan, bar sigur úr býtum.

,,Má segja að þegar listaverkið var tilbúið sé það orðið eitt af sterkari kennileitum í gömlu höfninni Í Reykjavík. Fyrirtækið HB Grandi er því vel að því komið að hljóta umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2014,“ sagði Hjálmar Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir