FréttirSkrá á póstlista

26.06.2014

Ísbjörninn hefur staðið fyrir sínu

Nú er liðið rétt rúmlega ár frá því að Ísbjörninn, hin glæsilega frystigeymsla HB Granda á Norðurgarði, var tekin í notkun. Á þessum tíma hafa alls rúmlega 17.000 tonn af fiski farið um Ísbjörninn og óhætt er að fullyrða að þessi nýbygging hafi fyrir löngu sannað gildi sitt.

,,Það er umtalsvert hagræði af Ísbirninum fyrir HB Granda. Staðsetning byggingarinnar við Norðurgarð er ákaflega hentug vegna nálægðarinnar við landvinnslu okkar, frystinguna og löndunarstað frystiskipa. Það sparast því umtalsverðar fjárhæðir vegna kostnaðar við flutning afurða milli staða,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstóri HB Granda. Hann nefnir einnig að tilkoma Ísbjarnarins hafi skapað möguleika á að flytja afurðir í auknum mæli út til markaða með brettaskipum, sem leggjast að hafnargarði beint fyrir utan Ísbjörninn. Því fylgi hagræði, tryggi einnig betri meðhöndlun á afurðum og auki sveigjanleika í afurðastýringu.

,,Fleiri kosti má að sjálfsögðu nefna. Þar að auki hefur Ísbjörninn reynst mjög vel þegar við höfum skipulagt fjölskylduskemmtanir á sjómannadaginn sl. tvö ár,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson.

Stórlega hefur dregið úr umferð gámaflutningabíla um miðbæinn

Það er löndunarþjónustan Landar ehf. sem sér um löndun á afla skipa HB Granda. Að sögn Reynis Daníelssonar, framkvæmdastjóra Landar ehf., hefur tilkoma Ísbjarnarins gjörbreytt allri vinnuaðstöðu og dregið stórlega úr flutningum á gámum með stórum flutningabílum um miðborg Reykjavíkur.

,,Mér telst til að á fyrsta starfsárinu höfum við getað skipað rúmlega 5.100 tonnum af afurðum, sem geyma hefði þurft annars staðar, beint um borð í flutningaskip. Þetta magn samsvarar um 210 gámum eða 420 ferðum gámaflutningabíla fram og til baka,“ segir Reynir en að hans sögn hefur Ísbjörninn orðið til að gjörbreyta vinnuaðstöðunni til hins betra.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir