FréttirSkrá á póstlista

18.06.2014

Gríðarlegur styrkur að eiga öflugan bakhjarl

Á dögunum var gengið frá kaupum HB Granda á öllu hlutafé í framleiðslufyrirtækinu Norðanfiski ehf. á Akranesi en fyrir átti HB Grandi 23,8% hlut í fyrirtækinu. Fyrirtækið var stofnað á Akureyri árið 2001 af Útgerðarfélagi Akureyringa og Kjarnafæði og framan af var starfsemin öll fyrir norðan. Við sameiningu við Íslenskt – franskt eldhús, sem var í eigu Haraldar Böðvarssonar hf., fluttist öll starfsemi til Akraness árið 2003.

Að sögn Péturs Þorleifssonar, framkvæmdastjóra Norðanfisks, hefur fyrirtækið sérhæft sig á framhaldsvinnslu á sjávarafurðum sem ýmist eru í stórpakkningum eða neytendaumbúðum.

,,Við vinnum aðallega afurðir fyrir innanlandsmarkaðinn og okkar viðskiptavinir eru verslanir, stóreldhús, s.s. mötuneyti skóla, leikskóla og vinnustaða, og svo hótel og veitingastaðir. Við erum mikið í að reykja og grafa lax. Svo er mikið um framleiðslu á brauðuðum fiskréttum sem aðeins þarf að hita upp og það sparar verulegan tíma við matreiðsluna,“ segir Pétur en þess má geta að þó fyrirtækið hafi upphaflega verið stofnað til að þjónusta innanlandsmarkað þá hafi markaðssvæðið fljótlega stækkað og hafi Norðanfiskur selt afurðir sínar til kaupenda víðs vegar í Evrópu. Pétur segir að þrátt fyrir góðar undirtektir ytra hafi dregið úr útflutningi og nú sé höfuðáherslan lögð á innanlandsmarkað. Daglega eru farnar tvær ferðir með afurðir frá Akranesi í flutningamiðstöð Flytjanda í Reykjavík en sama fyrirtæki sér um flutninga á afurðum til kaupenda á landsbyggðinni.

Nú starfa 28 manns hjá Norðanfiski og er það svipaður starfsmannafjöldi og verið hefur undanfarin ár. Þrátt fyrir það hefur fyrirtækið vaxið með aukinni tæknivæðingu í vinnslunni. Mikil áhersla er lögð á vöruþróun en vörulisti Norðanfisks telur nú um 300 rétti og afurðir. Velta fyrirtækisins var 1.260 milljónir króna á árinu 2013.

Pétur segir of snemmt að segja til um hvaða þýðingu kaup HB Granda á öllu hlutafé í Norðanfiski muni hafa fyrir fyrirtækið en það sé þó ljóst að það sé gríðarlegur styrkur að hafa svo öflugan bakhjarl sem eiganda og HB Grandi er.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir