FréttirSkrá á póstlista

11.06.2014

Beinum kolmunnaveiðum að ljúka

,,Við erum einir eftir af íslensku skipunum á miðunum og ætli maður reyni ekki eitthvað fram eftir degi og láti síðan gott heita. Við erum komnir í Rósagarðinn, vel inni í íslenskri landhelgi, en aflinn hefur verið tregur,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann fyrr í dag.

Að sögn Garðars Svavarssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, fór Ingunn AK ekki aftur til kolmunnaveiða eftir veiðiferðina sem farin var eftir sjómannadaginn. Faxi RE og Lundey fóru hins vegar aftur miðin en áhöfnin á Faxa hætti veiðum í gær vegna dræmrar veiði og hið sama má segja um öll íslensku skipin utan hvað Lundey varð eftir á miðunum.

,,Við fengum um 200 tonn eftir 18 tíma hol í gær og svipað aflamagn daginn áður. Við leituðum að kolmunna langt austur eftir en án árangurs og núna erum við í Rósagarðinum. Útlitið er ekki gott en við ætlum að þrjóskast við eitthvað fram eftir degi í von um að fá einhver tonn til viðbótar,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

Samkvæmt upplýsingum frá Garðari Svavarssyni hafa skip HB Granda veitt rúmlega 40 þúsund tonn af kolmunna á vertíðinni. Eftirstöðvar kvótans verða nýttar til að veiða kolmunna sem meðafla með makríl og síld nú í sumar. Megninu af kolmunnaafla skipanna nú í vor og í sumar var landað á Vopnafirði. Rúmlega 9.000 tonnum var þó landað á Akranesi í byrjun vertíðarinnar á meðan breytingar á fiskmjölsverksmiðjunni á Vopnafirði stóðu yfir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir