FréttirSkrá á póstlista

06.06.2014

Mjög góð kolmunnaveiði innan íslenskrar lögsögu eftir sjómannadaginn

Skip, sem héldu til kolmunnaveiða eftir það hlé sem varð á veiðunum vegna sjómannadagsins, fengu mjög góða kolmunnaveiði í íslenskri lögsögu á miðvikudag. Skipin fylgdu lóðningunni eftir yfir miðlínuna en veiðin í færeysku lögsögunni hefur ekki verið eins góð eftir það.

Róbert Axelsson, sem er skipstjóri á Ingunni AK í yfirstandandi veiðiferð, segir að Lundey NS hafi fengið góðan afla í nágrenni Þórsbanka í íslensku lögsögunni eftir að skipið hafi haldið til veiða eftir sjómannadaginn og hin íslensku skipin hafi leitað fyrir sér á svipuðu svæði.

,,Við tókum stutt hol vestan við Þórsbankann til að byrja með en fengum bara um 40 tonn af kolmunna en síðan færðum við okkur austur fyrir bankann og fengum 550-570 tonn í einu holi. Maður var því vongóður eftir góða byrjun en afli hefur heldur dregist saman,“ sagði Róbert er rætt var við hann í gær.

,,Nú erum við komnir rétt yfir miðlínuna og höfum fengið um 280 tonn í einu holi og svo eitthvað smáræði áðan en þá var óklárt og við urðum að hífa snemma. Alls erum við komnir með um 900 tonna afla það sem af er túrnum,“ sagði Róbert Axelsson.
Hjalti Einarsson, sem er skipstjóri á Faxa RE í veiðiferðinni, segir svipaða sögu.

,,Við fengum ágætis skot innan íslensku lögsögunnar fyrst eftir að við komum út, um 480 tonn í einu holi en veiðin hefur tregast. Við eltum kolmunnalóðninguna yfir miðlínuna og erum búnir að hífa einu sinni. Aflinn er rúmlega 300 tonn þannig að við erum sennilega komnir með um 800 tonn alls eða hálffermi,“ sagði Hjalti en þótt lítil reynsla sé komin á það hvernig kolmunninn hagar sér um þessar mundir þá virðist torfan hafa gengið austur yfir miðlínuna og þaðan í suðaustur.

,,Eins og stendur erum við um 30 mílum SA við þann stað sem við byrjuðum á, rétt innan færeyskrar lögsögu og góðu fréttirnar eru þær að fiskurinn er mun vænni en sá sem við vorum að veiða í síðustu veiðiferðinni í færeysku lögsögunni áður en hlé var gert á veiðum vegna sjómannadagsins,“ sagði Hjalti Einarsson en einnig var rætt við hann í gær.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir