FréttirSkrá á póstlista

02.06.2014

Velheppnuð fjölskylduhátíð HB Granda

Talið er að 5.000 til 7.000 manns hafi lagt leið sína á hátíðarsvæði HB Granda á sjómannadeginum. Að sögn Sigurðar Gunnarssonar, tækistjóra landvinnslu félagsins, sem leiddi vinnuna við að undirbúa hátíðarsvæðið og fylgjast framgangi mála, tókst hátíðin einkar vel þrátt fyrir fremur votviðrasaman dag.

,,Fólk setti veðrið greinilega ekkert fyrir sig. Reyndar var veðrið ekki svo slæmt en það var smágjóla og stöku rigningarskúrir. Það var hins vegar hlýtt,“ segir Sigurður.

Dagskráin á hafnarbakkanum fyrir framan frystigeymsluna Ísbjörninn var sniðin að þörfum fjölskyldufólks. Þar voru leiktæki fyrir börn á öllum aldri og meðal þeirra, sem komu fram og skemmtu gestum, voru Skoppa og Skrítla, leikarar úr Latabæ, hinn ungi töframaður Jón Arnór og Palli Jójó. Tveir þeir síðast nefndu vöktu mikla athygli í úrslitum Ísland Got Talent á dögunum. Kynnar voru Gói úr Stundinni okkar og Atli Þór. Einnig var sirkusfólk á svæðinu, boðið var upp á andlitsmálningu fyrir börnin og uppblásnar blöðrur í allra kvikinda líki.

Að vanda var mikið lagt upp úr veitingum. Vöflur með rjóma, kleinur, kanilsnúðar og skúffukökur runnu út eins og heitar lummur og boðið var upp á drykki, frostpinna, poppkorn og pylsur.

,,Þótt hátíðarsvæðið væri afmarkað við hafnarbakkann fyrir framan Ísbjörninn þá hefur umhverfislistaverkið Þúfa eftir Ólöfu Nordal, sem stendur við austurgafl frystigeymslunnar, greinilega mikið aðdráttarafl. Það var stöðugur straumur fólks upp og niður göngustíginn á þúfunni allan daginn,“ segir Sigurður Gunnarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir