FréttirSkrá á póstlista

01.06.2014

Vegur sjómannadagsins hefur vaxið mikið

,,Ef eitthvað er þá hefur vegur sjómannadagsins farið mikið vaxandi hin síðari ár og það er vel. Nú orðið tengist sjómannadagurinn bæjarhátíðum, sem standa heila helgi, í mörgum byggðarlögum og nægir í því sambandi að nefna staði eins og Reykjavík, Grindavík, Vestmannaeyjar, Neskaupstað og fleiri mætti örugglega nefna.“

Þetta segir Magnús Þorvaldsson, fyrrverandi skipstjóri, en hann er einn af reynslumestu nótaveiðiskipstjórum landsins. Magnús lét af störfum sem skipstjóri á Víkingi AK þegar hann varð sjötugur. Áður en hann tók við skipstjórn á Víkingi var hann skipstjóri á Sunnubergi NS, sem þá var gert út af Tanga hf. á Vopnafirði sem síðar sameinaðist HB Granda. Magnús var 56 ár til sjós og hann segir sína fyrstu minningu af sjómannadeginum vera tengda bernskuárunum á Fáskrúðsfirði. Síðar bjó hann í 18 ár á Stöðvarfirði og tók virkan þátt í sjómannadagshátíðarhöldunum á staðnum, þ.e.a.s. ef hann var ekki á veiðum á norsk-íslenskri síld utan íslensku landhelginnar.

Að sögn Magnúsar hefur sjómannadagurinn á Íslandi vakið athygli utan landssteinanna og það færist í vöxt að góðir gestir komi erlendis frá, og þá ekki síst frá Færeyjum og Noregi, til að fylgjast með hátíðarhöldunum.

Af og til kemur það til tals að rétt sé að breyta dagsetningu sjómannadagsins enda henti tímasetningin í byrjun júní sér illa fyrir t.d. útgerðir togara á úthafskarfaveiðum. Magnús segir það sína skoðun að það sé ekki lausn.

,,Verði dagsetningunni breytt þá mun ný tímasetning örugglega rekast á við einhverjar aðrar veiðar eða viðburði,“ segir Magnús Þorvaldsson en hann vildi að lokum nota tækifærið til að óska öllum sjómönnum, fjölskyldum þeirra og öðrum, sem starfa við sjávarútveg, til hamingju með daginn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir