FréttirSkrá á póstlista

30.05.2014

Góð veiði á úthafskarfamiðunum síðustu sólarhringana

,,Það er nokkuð síðan veiðin tók að glæðast og síðustu sólarhringa hafa aflabrögðin verið góð. Við vorum að fá um tvö tonn á togtímann í tvo til þrjá daga áður en við hættum veiðum og héldum áleiðis til hafnar. Það samsvarar næstum því að vinnslan hafi þá verið rekin með fullum afköstum.“

Þetta kom fram í máli Kristins Gestssonar, skipstjóra á Þerney RE, en er rætt var við hann var skipið að nálgast Reykjavíkurhöfn. Tveir frystitogara HB Granda hafa stundað karfaveiðar á Reykjaneshryggnum frá því að veiðarnar máttu hefjast 10. maí sl. en auk Þerneyjar hefur Örfirisey RE verið að veiðum í úhafinu. Von er á því skipi til hafnar í kvöld.

Síðast er við ræddum við Kristin hafði hann gert hlé á karfaveiðum á Reykjaneshryggnum vegna þess hve aflinn var tregur og Þerney var þá á karfa- og gulllaxveiðum á hefðbundnum miðum SV við land. Fréttir bárust hins vegar fljótlega af vaxandi veiði og þegar Þerney fór aftur út á Hrygginn voru íslensk skip að veiða karfann vel innan við 200 mílna landhelgismörkin.

,,Við fylgdum svo þessum bletti einar 30 til 40 mílur út fyrir lögsöguna og þar tóku þrír rússneskir togarar einnig þátt í veiðunum. Þegar við hættum var rússnesku togurunum hins vegar að fjölga á slóðinni og karfinn var þá á suðurleið. Það er ómögulegt að spá fyrir um það hvert ferðinni er heitið. Við höfum séð þessar torfur ganga í hringi og þess vegna gæti þessi blettur, sem við vorum að veiða úr, verið genginn aftur inn í íslenska landhelgi þegar við komum á miðin eftir sjómannadagshelgina.“

Að sögn Kristins er karfinn, sem veiðst hefur, ágætur en þó sjónarmun minni en sá karfi sem verið var að veiða á vertíðinni í fyrra.

,,Að þessu sinni hefur sáralítil veiði verið fyrir neðan 400 faðma dýpi en þar fengum við stærsta og besta karfann í fyrra. Það var aðeins í tveimur síðustu holunum okkar að þessu sinni að við fengum afla svo djúpt og það var stór og góður karfi,“ sagði Kristinn Gestsson.

Alls er afli Þerneyjar í þessari veiðiferð um 650 tonn. Þar af eru um 350 tonn af karfa af Reykjaneshryggnum sem kvótasettur er sérstaklega.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir