FréttirSkrá á póstlista

23.05.2014

Treg kolmunnaveiði í færeyskri landhelgi

Kolmunnaveiði hefur verið með tregara móti síðustu daga og vikur í færeysku lögsögunni. Svo virðist sem að kolmunninn haldi sig á svipuðu svæði og undanfarnar vikur, SSV við Færeyjar, og ekki hefur orðið vart við fisk í veiðanlegu magni norðar enn sem komið er.

,,Veiðin hefur verið treg og það þarf mikið að hafa fyrir aflanum,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, en skipið er nú á leið til Vopnafjarðar með fullfermi eða rétt rúmlega 1.500 tonn. Um 30 tíma sigling er frá veiðisvæðinu til Vopnafjarðar og sagðist Albert reikna með því að skipið kæmi til hafnar um sjöleytið í kvöld.

,,Þetta er barningur. Yfirleitt er kastað um miðnæturbil og svo er trollið dregið í sólarhring eða svo. Aflinn hefur verið frá um 150 tonnum og upp í 300 tonn í holi. Við köstuðum sjö sinnum í þessari veiðiferð á sjö dögum og það skilaði okkur þessum afla,“ segir Albert en hann reiknar með því að ná einni kolmunnaveiðiferð fyrir sjómannadag og síðan annari í byrjun júní. Þegar líður á júnímánuð er komið að veiðum á norsk-íslensku síldinni og makríl.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir