FréttirSkrá á póstlista

19.05.2014

Slæm vertíðarbyrjun

Úthafskarfaveiðar íslenskra skipa máttu hefjast 10. maí sl. og á fyrsta degi vertíðarinnar voru um átta íslensk skip komin á miðin á Reykjaneshryggnum. Utan lögsögumarkanna voru þá rúmlega 20 erlend skip að veiðum, flest frá Rússlandi. Óhætt er að segja að vertíðin fari rólega af stað og að sögn Kristins Gestssonar, skipstjóra á Þerney RE, hafa aflabrögðin fram að þessu verið afskaplega léleg.

,,Við vorum mættir á svæðið þegar veiðar máttu hefjast og byrjuðum þar sem útlendingarnir voru eða utan landhelgislínunnar. Aflinn var lítill og úthafskarfinn smár. Við færðum okkur síðan 15-20 mílur inn fyrir línuna og þar fengum við góðan djúpkarfa en aflamagnið var lítið. Við vorum þarna úti í nokkra daga. Aflinn var frá fimm til tíu tonn á sólarhring þannig að þetta voru ekki nema 200 til 300 kíló af karfa á togtímann,“ segir Kristinn en hann er nú með skipið á veiðum á heimamiðum og bíður þess að aflabrögðin á Reykjaneshryggnum lagist. Aðeins fjórir íslenskir togarar eru nú á veiðisvæðinu innan landhelginnar, þ.á.m. Örfirisey RE, en aðrir eru í biðstöðu og bíða þess að aflabrögðin glæðist.

Vertíðarbyrjunin nú er allt önnur en í fyrra en þá var mokveiði frá fyrsta degi og segir Kristinn að þá hafi ekki tekið nema um hálfan mánuð að ná kvótanum. Ef veiðin glæðist ekki verulega á næstunni má reikna með því að skipin þurfi að vera að veiðum vel fram yfir sjómannadaginn. Þerney og Örfirisey munu sjá um að veiða karfakvóta HB Granda á Reykjaneshryggnum á þessu ári og má hvort skip veiða um 900 tonn af karfa á þessari vertíð.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir