FréttirSkrá á póstlista

14.05.2014

Kolmunnaveiðin hefur tregast síðustu dagana

,,Veiðin hefur breyst mikið síðustu þrjá dagana og er nú mun tregari en verið hefur fram að þessu. Við vonum að þetta verði ekki langt bakslag og að veiðin glæðist fljótlega að nýju,“ sagði Stefán Geir Jónsson, sem er skipstjóri á Lundey NS í veiðiferðinni sem nú stendur yfir, er rætt var við hann upp úr hádeginu í dag.

Lundey fór frá Vopnafirði sl. sunnudagsmorgun að löndun lokinni en aflinn í síðustu veiðiferð skipsins var rúmlega 1.600 tonn af kolmunna. Sá afli fékkst á um tveimur sólarhringum.

,,Við byrjuðum fyrsta holið upp úr hádegi á mánudag og nú tveimur dögum síðar höfum við aðeins klárað tvö hol. Aflinn er rúmlega 500 tonn. Þetta er eins hjá hinum skipunum. Menn hafa verið að toga frá 12 tímum og upp í rúmlega 24 tíma og aflinn hefur verið frá 200 tonnum og upp í 400 tonn í holi,“ segir Stefán Geir.

Að sögn skipstjórans er fiskurinn á leið norður með Mykineskantinum og togsvæði skipanna er stórt.

,,Menn hafa verið að toga hér allt norður í Ræsi en svo nefnist dýpið sem er utan við Færeyjabankann. Svo hefur verið togað suður með kantinum og alls er þessi togslóð rúmlega 40 mílur að lengd. Þegar við hífðum í gærkvöldi og þá vorum við í um 20 til 30 mílur beint vestur af Suðurey, sem er syðst Færeyja,“ sagði Stefán Geir Jónsson en að hans sögn fer veiðin nú öll fram á svokölluðu skiljusvæði en það þýðir að nota verður smáfiskaskiljur á trollunum. Það auðveldar ekki veiðarnar og eins þykja sjómönnum skiljurnar vera viðkvæmar fyrir hnjaski.

Af öðrum uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að frétta að Ingunn AK er að veiðum í færeysku lögsögunni og Faxi RE er á leið á miðin.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir