FréttirSkrá á póstlista

07.05.2014

Gengið frá kaupum HB Granda á formunarvél

Á fyrsta degi sjávarútvegssýningarinnar í Brussel var formlega gengið frá kaupum HB Granda á formunarvél af gerðinni RevoPortioner system frá Marel Townsend Further Processing. Með vélinni er hægt að móta blokkarbita og eins marningsefni í mismunandi stærðir og af mismunandi lögun að ósk kaupenda.

Að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra bolfiskssviðs HB Granda, eru kaup á þessum nýja búnaði liður í þeirri þróun og viðleitni félagsins að auka stöðugt verðmæti afurðanna.

,,Blokk og marningur eru meðal ódýrustu afurða sem við seljum en með þessari nýju vél teljum við ótvírætt að hægt verði að auka virði afurðanna. Fram að þessu höfum við selt heilfrysta blokk og marning en nú gefst okkur kostur á að vinna þessar afurðir ferskar og móta þær að óskum kaupenda fyrir frystingu. Í því liggur virðisaukinn,“ segir Torfi en að hans sögn verður nýi búnaðurinn, ásamt vinnslulínum og lausfrysti, settur upp í vinnslusal á efri hæð fiskiðjuversins á Akranesi.

,,Það liggur fyrir að þessi vinnsla mun leiða til fjölgunar starfa á Akranesi en hvert umfangið verður er ekki gott að segja til um að svo komnu máli,“ segir Torfi Þ. Þorsteinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir