FréttirSkrá á póstlista

05.05.2014

Kolmunnaveiðar ganga ágætlega

Lundey NS kom til heimahafnar á Vopnafirði á sjötta tímanum í dag eftir rúmlega sólarhringssiglingu frá kolmunnaveiðisvæðinu í færeysku lögsögunni. Aflinn er hátt í 1.600 tonn að sögn skipstjórans, Arnþórs Hjörleifssonar.

,,Veiðin hefur verið upp og ofan. Það var mokveiði á gráa svæðinu, rétt sunnan við færeysku lögsögumörkin, þegar við fórum frá Akranesi að kvöldi sl. þriðjudags. Það var skítabræla á leiðinni á miðin og við urðum að sigla á sjö til átta mílna hraða á útleiðinni og fyrsta holið var ekki tekið fyrr en að morgni 1. maí. Veiðin hafði þá dottið niður bæði á gráa svæðinu og syðst í færeysku lögsögunni. Við reyndum því fyrir okkur á svokölluðu skiljusvæði, þar sem þarf að nota seiðaskilju, í kantinum úti af Færeyjabanka. Það var greinilega töluvert af kolmunna á svæðinu, þótt lóðningar væru ekki sterkar, og við fengum ágæt hol með því að toga norður eftir kantinum. Á sama tíma togaði Faxi RE suður eftir kantinum og fékk einnig góðan afla,“ segir Arnþór.

Að sögn skipstjórans er kolmunninn greinilega á norðurleið og nú fæst sömuleiðis heldur smærri fiskur en í fyrri veiðiferðum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir