FréttirSkrá á póstlista

03.05.2014

Gullkarfaveiðar við Ísland vottaðar sjálfbærar

Þann 1. maí var gefin út alþjóðleg vottun um að veiðar á gullkarfa (sebastes marinus / sebastes norvegicus) við Ísland séu stundaðar í samræmi við ábyrga fiskveiðistjórn og góða umgengni um auðlindir hafsins. Vottunin, sem byggir á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi, er unnin undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (IRF) en áður hefur sambærileg vottun verið gefin út fyrir íslenskan þorsk, ýsu og ufsa.

Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, segir þetta jákvæðar og mikilvægar fréttir. 

„Það er ákaflega mikilvægt að gullkarfaveiðar hafi nú verið vottaðar. Gerðar eru sífellt auknar kröfur um ábyrgar fiskveiðar meðal kaupenda sjávarafurða og er vottunin til vitnis um að íslenskur sjávarútvegur sé í fararbroddi varðandi sjálfbæra nýtingu fiskistofna.“

Fiskifélag Íslands og síðar Ábyrgar fiskveiðar ses., sem helstu samtök hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi standa að, hafði forgöngu um að byggja upp vottunarverkefni á Íslandi undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Á heimsíðu IRF (www.ResponsibleFisheries.is) kemur fram að vottunarferlið sé unnið samkvæmt ströngustu alþjóðlega viðurkenndum kröfum. Kröfulýsingar eru unnar samkvæmt siðareglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun vegna veiða úr villtum stofnum. Um er að ræða vottun óháðs þriðja aðila sem er sú tegund vottunar sem gerir mestar kröfur um hlutlægni í mati á viðfangsefninu. Samið var við Global Trust/SAI Global á Írlandi um samstarf um þróun vottunarferilsins. Fyrirtækið er óháður vottunaraðili og sérstaklega faggiltur af alþjóðlega viðurkenndum faggildingaraðila til að sinna vottun af þessu tagi. Þá hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) staðfest að aflareglur séu í samræmi við varúðarleið við stjórn fiskveiða.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir