FréttirSkrá á póstlista

30.04.2014

Nýtt uppsjávarveiðiskip HB Granda að taka á sig mynd

Vinnu við smíði nýs uppsjávarveiðiskips HB Granda í Celíktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi miðar vel.
Svo sem kunnugt er samdi HB Grandi við tyrknesku stöðina, sem staðsett er í Istanbul, um smíði tveggja nýrra uppsjávarveiðiskipa og fljótlega hefst líka vinna við gerð eininga eða blokka fyrir nýsmíði skips númer 2.

Að sögn Þórarins Sigurbjörnssonar, sem er starfandi eftirlitsmaður með skipasmíðunum í Istanbul, hófst vinna við smíði fyrra skipsins í byrjun nóvember sl. Þá var byrjað á því að sníða niður efni í hinar svokölluðu blokkir en skipin verða hvort um sig samsett úr alls 40 blokkum. Skrokksmíðin fer fram í Hatsan skipasmíðastöðinni utan við Istanbul og verður skipið síðan dregið yfir til Celíktrans stöðvarinnar í Istanbul en lokið verður við smíðina þar.

,,Það er búið að smíða um 90% af blokkunum í fyrra skipið, sem ber vinnuheitið CS46, og búið er að setja saman tíu þeirra þannig að skrokkurinn er farinn að taka mynd á sig. Kjölurinn og lestarnar eru komnar saman en afturhlutinn bíður eftir aðalvélin komi til Tyrklands. Verkið hefur tafist nokkuð, fyrst vegna þess að það vantaði stál af réttum þykkleika og síðan vegna þess að afhendingu aðalvélarinnar hefur seiknað. Hún var gangsett hjá Wärtsila verksmiðjunum í Finnlandi um helgina og mér skilst að það muni taka um tíu daga að aka henni hingað suður til Tyrklands. Samsetning á afturhluta skrokksins hefur dregist vegna þessa en menn eru vongóðir um að hægt verði að vinna upp töfina á næstu vikum og mánuðum,“ segir Þórarinn en hann reiknar með því að innan mánaðar verði komin góð mynd á skrokk skipsins.

Nýju uppsjávarveiðiskipin verða 80,3 metrar á lengd og 17,0 metrar á breidd og í þeim verður 4.600 kW aðalvél. Skipin eru systurskip skips sem í smíðum er fyrir Ísfélag Vestmannaeyja í sömu skipasmíðastöð og verður það væntanlega afhent eigendum í lok maímánaðar eða í byrjun júní. Samkvæmt samningi á fyrra skip HB Granda að vera fullbúið til afhendingar í febrúar á næsta ári og hið seinna í október sama ár.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir