FréttirSkrá á póstlista

28.04.2014

Mjög góð veiði á Fjöllunum og víðar

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom til hafnar í Reykjavík um hádegisbilið í dag með góðan afla eftir rétt rúmlega fjögurra sólarhringa úthald. Að sögn skipstjórans, Eiríks Jónssonar, er ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðunum.

,,Við fórum út aðfararnótt sl. fimmtudags og byrjuðum á karfaveiðum á Fjöllunum eða á hinum hefðbundnu karfamiðum okkar. Þar var mjög góð veiði og aflinn var stór og góður gullkarfi. Þar með vorum við komnir með karfaskammtinn okkar og því var farið norður á Vestfjarðamið og lengst fórum við að Þverálshorni,“ segir Eiríkur en að hans sögn byrjaði veiðin frekar rólega á Vestfjarðamiðum.

,,Síðan bætti bara í og á þeim sólarhring sem við vorum að veiðum fengum við góðan þorskafla og einhvern meðafli eins og gengur. Við vorum svo á leiðinni til hafnar þegar fréttir bárust af því að ufsi væri að veiðast með karfa í Víkurálnum og þar sem við vorum ekki langt undan þá lögðum við lykkju á leið okkar og tókum þrjú stutt hol. Í þeim fengum við karfa og ufsa,“ sagði Eiríkur Jónsson.

Þetta var fyrsta veiðiferð Sturlaugs H. Böðvarssonar eftir um mánaðar hlé vegna slipptöku. Auk venjulegs viðhalds var tíminn nýttur til þess að taka upp aðalvél skipsins og eins var lagað til á millidekkinu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir