FréttirSkrá á póstlista

25.04.2014

Fínasta kolmunnaveiði syðst í færeysku lögsögunni

Faxi RE er nú á leið til Akraness með fullfermi af kolmunna eða um 1.500 tonn. Sá afli fékkst á þremur dögum syðst í færeysku lögsögunni og að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra fengust um 150 til 400 tonn í holi.

,,Það er búin að vera ágætis veiði en svo virðist sem að kolmunninn gangi ekki mjög hratt norður í færeysku lögsöguna. Veiðin hefur verið best syðst eins og í veiðiferðinni á undan. E.t.v. er fiskurinn kominn í æti og fiskiríið er mjög blettótt. Við enduðum veiðiferðina t.a.m. á litlum bletti þar sem voru sterkar lóðningar. Svæðið hefði dugað vel fyrir eitt skip en þarna voru hins vegar mörg skip að toga og menn þurftu að sæta færis til að komast á togslóðina,“ segir Albert.

Faxi hélt af stað af miðunum áleiðis til Akraness um hádegi í gær og reiknaði Albert með því að skipið kæmi til hafnar laust upp úr miðnætti í kvöld. Siglingarleiðin er tæpar 460 mílur. Hann segir kolmunnann í þessari veiðiferð vera stærri en þann sem fékkst í veiðiferðinni á undan en þá var Faxi með um 1.520 tonna afla.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir