FréttirSkrá á póstlista

17.04.2014

Góð kolmunnaveiði SV af Færeyjum

Kolmunni er genginn af krafti norður í færeyska lögsögu og þar hafa 12 íslensk skip verið að veiðum frá því sl. mánudag.

Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni AK, hófust veiðarnar fyrir alvöru að kvöldi mánudags og áhöfnin á Ingunni lauk við fyrsta holið á þriðjudagsmorgun.

,,Það er fínasta veiði og við höfum verið að fá þetta um 300 til 500 tonn í holi. Við lentum því miður í vandræðum með trollið og misstum stærsta holið en samtals erum við komnir með um 1.500 tonna afla,“ sagði Guðlaugur er tíðindamaður heimasíðu HB Granda náði tali af honum í morgun. Ingunn var þá um 110 mílur SV af Akrabergi, syðsta odda Færeyja.

Samkvæmt samningum við Færeyinga mega aðeins 12 íslensk skip vera að veiðum í færeysku lögsögunni í einu. Skipin hófu veiðar í alþjóðlegri lögsögu vestan við Írland en eftir það gekk kolmunninn inn í bresku lögsöguna og það var ekki fyrr en í byrjun vikunnar að hann gekk norður fyrir færeysku lögsögumörkin.

,,Við vorum fimm daga í höfn á Suðurey á meðan beðið var tíðinda af kolmunnagöngunni og við fórum svo út sl. mánudag. Okkur vantar um 500 tonna afla til að fylla lestarrýmið og miðað við aflabrögðin undanfarna daga þá ætti það að ganga fljótt og vel fyrir sig,“ sagði Guðlaugur Jónsson.

Við heyrðum einnig í Arnþóri Hjörleifssyni, skipstjóra á Lundey NS, en skipið var þá komið með um 1.000 tonna afla í þremur holum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir