FréttirSkrá á póstlista

09.04.2014

Bíða í Færeyjum eftir kolmunnagöngunni

Tíu íslensk uppsjávarveiðiskip eru nú í höfn í Færeyjum, fimm í Þórshöfn og fimm á Þvereyri í Trongsvági á Suðurey, og áhafnir þeirra bíða eftir því að kolmunni gangi norður úr ESB lögsögunni og inn í færeysku lögsöguna. Tvö íslensk skip eru enn að reyna fyrir sér í færeysku lögsögunni eða á ,,gráa svæðinu“ þar fyrir fyrir sunnan og fengu þau einhvern afla í nótt.

,,Við tókum fyrsta holið inni í færeysku lögsögunni sl. sunnudag en það var ekkert að hafa. Við sigldum síðan um svæðið ásamt hinum íslensku skipunum og það var samdóma álit manna að hvergi lóðaði á kolmunna í því magni að það væri verjandi að halda veiðunum áfram vegna olíukostnaðar. Það var því ákveðið að leita hafnar í Færeyjum og hér bíðum við eftir því að kolmunninn gangi norður eftir. Í fyrra fengum við fyrsta aflann í færeysku lögsögunni þann 6. apríl, þannig að gangan er seinna á ferðinni nú en þá,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE er við náðum tali af honum í Trongisvági fyrr í dag.

Að sögn Alberts hefur verið mjög góð kolmunnaveiði í ESB lögsögunni vestan við Bretlandseyjar og svo er að sjá að stærstur hluti kolmunagöngunnar fari þar um. Nokkur rússnesk skip eru að veiðum á alþjóðahafsvæðinu þar vestur af en Albert efast um að afli þeirra sé góður.

,,Biðin hlýtur að fara að styttast og við verðum tilbúnir þegar kolmunninn gengur hingað norður eftir,“ segir Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir