FréttirSkrá á póstlista

07.04.2014

Unnið allan sólarhringinn í fiskmjölsverksmiðjunni á Akranesi

Á undanförnum dögum hafa alls borist um 4.000 tonn af kolmunna til fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi og þar er nú unnið allan sólarhringinn á tveimur tólf tíma vöktun. Stóra verksmiðjan er keyrð á fullum afköstum vegna bræðslu á kolmunna en ný framleiðslulína, sem tekin var í notkun fyrir nokkru, er hins vegar nýtt til framleiðslu á beinamjöli.

Að sögn Almars Sigurjónssonar, rekstrarstjóra fiskmjölsverksmiðju HB Granda, kom Ingunn AK með um 1.800 tonna kolmunnaafla til Akraness í síðustu viku og í kjörfarið fylgdu Faxi RE og Lundey NS með um 1.100 tonna afla hvort skip. Ingunn er nú í sinni annarri veiðiferð og er skipið statt í færeysku lögsögunni. Löndun úr Faxa lauk á fimmtudag og er skipið farið frá Akranesi.

,,Löndun á afla Lundeyjar lauk á föstudag og ef að líkum lætur mun það taka okkur tvo sólarhringa að vinna þann afla. Kolmunninn er frekar magur um þessar mundir og lýsisframleiðsla er í samræmi við það,“ segir Almar en að hans sögn vinna fimm manns við stóru verksmiðjuna á hvorri vakt. Hann reiknar ekki með því að fá meira af kolmunna til bræðslu á næstunni enda sé verksmiðjan á Vopnafirði að komast í gang að nýju eftir stækkun og endurbætur og notar þar að auki eingöngu innlenda orkugjafa að öllu jöfnu.

,,Þeir liggja betur við miðunum og við fáum væntanlega ekki meira af kolmunna hingað nema það verði þeim mun meiri kraftur í veiðunum,“ segir Almar Sigurjónsson en samkvæmt upplýsingum hans var unnið úr um 10.000 tonnum af skorinni loðnu á Akranesi á meðan hrognatöku og –frystingu stóð.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir