FréttirSkrá á póstlista

03.04.2014

Botninn dottinn úr kolmunnaveiðunum á alþjóðlega hafsvæðinu

Svo virðist sem að sáralítið af kolmunna hafi gengið norður með Bretlandseyjum utan bresku lögsögulínunnar að þessu sinni. Ágæt veiði var á alþjóðlega hafsvæðinu vestur af Írlandi í síðustu viku en síðan datt botninn úr veiðunum og íslensku skipin, sem voru á veiðisvæðinu, hafa þurft mikið að hafa fyrir aflanum.

,,Við tókum fyrsta holið á fimmtudag í síðustu viku og til að byrja með leit þetta ekki illa út. Síðan hvarf kolmunninn eins og hendi væri veifað og næstu dagar á eftir fóru í siglingu og leit að kolmunna í veiðanlegu magni. Það var sáralítið að sjá og syðst fórum við suður á 55°02´N. Síðan leituðum við norður með lögsögulínunni þar til að við gáfumst upp og héldum heimleiðis,“ segir Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, en er rætt var við hann var skipið að nálgast Reykjanes og er ferðinni heitið á Akranes. Að sögn Arnþórs er aflinn í veiðiferðinni um 1.100 til 1.200 tonn af kolmunna og honum telst til að olíueyðslan nemi um 140 þúsund lítrum.

,,Ég held að það gerist ekkert í kolmunnaveiðum okkar fyrr en kolmunninn gengur inn í færeysku lögsöguna. Íslensk skip, sem voru í svipaðri stöðu og við, hafa leitað austur eftir færeysku lögsögumörkunum og urðu vör við kolmunna nú í vikunni rétt suður af línunni,“ segir Arnþór Hjörleifsson en hann reiknar með því að verða á Akranesi seint í kvöld. Byrjað verður á að taka olíu í Reykjavík um kvöldmatarleytið og síðan verður haldið á Skagann. Þar er nú verið að landa kolmunna úr Faxa RE en áður hafði Ingunn AK komið þangað með kolmunnafarm.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir