FréttirSkrá á póstlista

31.03.2014

Þerney RE komin af veiðum úr norskri lögsögu

Frystitogarinn Þerney RE kom til hafnar í Reykjavík snemma í morgun eftir 38 daga úthald. Skipið var að veiðum í norskri lögsögu og aflinn á þeim rúmlega 31 degi frá því að fyrsta holið var tekið og þar til að veiðum lauk er 1.270 tonn af fiski upp úr sjó. Það samsvarar um 665 tonnum af afurðum og aflaverðmætið er 400 milljónir króna (FOB).

Kristinn Gestsson skipstjóri segir að veiðarnar hafi aðallega verið stundaðar á vertíðarsvæðinu út af Lófót í Norður-Noregi.

,,Veiðarnar gengu mjög vel og frátafir vegna veðurs voru ekki nema tæpir tveir sólarhringar. Það má segja að við höfum haldið uppi svo til fullri vinnslu allan tímann og uppistaðan í aflanum var rígvænn vertíðarþorskur,“ segir Kristinn.

Samkvæmt þeirri reglugerð, sem gildir um veiðar íslenskra skipa á þorski í norsku lögsögunni, má hlutfall aukaafla nema allt að 30% umfram þorskkvótann. Í umræddri veiðiferð nam aukaaflinn tæplega 24% af heildarveiðinni.

,,Við erum með um 970 tonn af þorski upp úr sjó en annar afli er mest ýsa, dálítið af ufsa og um tvö tonn af löngu. Aðrar afurðir en fryst þorskflök standa fyrir um 30% aflaverðmætisins. Ýsan vegur þar þungt en við erum með um 105 tonn af fiskmjöli, sem framleidd voru úr hausum og hryggjum, og um 50 tonn af hrognum. Lifrina getum við ekki nýtt enn sem komið er til framleiðslu á lýsi en það stendur til bóta.

Verð á þorski er heldur að styrkjast að mér sýnist. Fiskmjöl hefur lækkað í verði en við fáum gott verð fyrir hrognin. Það liggur hins vegar feykileg vinna á bak við þessa verðmætasköpun og ekki síst í vinnslunni. Nú fer áhöfnin í verðskuldað frí og nýr mannskapur mun standa vaktina í næstu veiðiferð,“ segir Kristinn Gestsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir