FréttirSkrá á póstlista

28.03.2014

Skúlptúrnámskeið í gömlu fiskmjölsverksmiðjunni á Granda

,,Gömul saga og ný“ er heiti á námskeiði í skúlptúrgerð sem Ólöf Nordal myndlistarmaður stýrir í hinni gömlu fiskmjölsverksmiðju HB Granda við Reykjavíkurhöfn á vegum Listaháskóla Íslands. Þátttakendur eru tíu talsins, þar af skiptinemar en þeir eru styrktir af Erasmus sem er háskólaáætlun Evrópusambandsins. Námskeiðið hófst í lok febrúar, stendur í sex vikur og lýkur þann 3. apríl nk.

Ólöf segir að rýmið í gömlu verksmiðjunni sé hvort tveggja óvenjulegt og sérstakt og það sé ástæða þess að hana langaði til að námskeiðið færi þar fram.

,,Við erum að vinna með skúlptúra og rými en rýmið er vægast sagt sérstakt. Sums staðar er búið að fjarlægja milligólf og lofthæðin er mikil. Þetta er því spennandi staður fyrir námskeiðið. Við erum að vinna með umhverfi hafnarinnar og þangað sækja nemendurnir innblástur. Einn nemendanna hefur t.a.m. unnið með kaðla sem stjórnendur Hampiðjunnar voru svo vinsamlegir að leggja til. Annar tók viðtöl við fólk sem þekkir sögu hússins og sá þriðji er að gera höfuðmynd af Marshall hershöfðingja svo dæmi séu nefnd,“ segir Ólöf en í daglegu tali er gamla verksmiðjan á Grandanum nefnd ,,Marshallhúsið“.

Nokkur verkanna, sem unnin hafa verið á námskeiðinu, eru að verða fullbúin og að sögn Ólafar stendur til að halda sýningu á verkunum nk. föstudag. Samnemendum þátttakendanna úr Listaháskólanum verður boðið á sýninguna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir