FréttirSkrá á póstlista

26.03.2014

Þolinmæðisvinna á kolmunnaveiðunum vestan Írlands

,,Þetta mjakast hjá okkur. Það er erfitt að átta sig á því hve mikið er af kolmunna hérna. Veiðin er blettótt, engin mokveiði og það þarf því að sýna mikla þolinmæði,“ segir Róbert Axelsson, sem er skipstjóri á Ingunni AK í kolmunnaveiðiferðinni sem nú stendur yfir.

Ingunn hefur verið þrjá daga á veiðum en siglingartíminn á miðin, sem eru um 260 sjómílur vestur af strönd Norður-Írlands, er um tveir og hálfur sólarhringur. Að sögn Róberts er aflinn í veiðiferðinni kominn í um 1.100 tonn og það vantar því um 500 til 600 tonn til að skammturinn teljist hæfilegur fyrir svo langa siglingu.

,,Það var leiðindaveður þegar við komum hingað en veðrið skánaði í gær og er ágætt í dag. Horfur fyrir næstu daga eru ágætar,“ segir Róbert en hann segir nokkurn fjölda skipa vera á veiðislóðinni en auk íslensku skipanna eru þar skip frá Rússlandi, Noregi og Færeyjum.

Það er misjafnt hve menn hitta vel á lóðningarnar og að sögn Róberts hefur lengd toganna verið frá einum tíma og upp í tíu tíma. Togað er á 270 til 330 faðma dýpi.

,,Það er ekki óalgengt að menn séu að fá um 200 tonn í holi en það mesta, sem við höfum fengið, eru um 400 tonn. Síðan allt þaðan af minna. Veiðin hefur heldur tregast í dag þannig að við togum lengur í einu,“ segir Róbert Axelsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir