FréttirSkrá á póstlista

20.03.2014

Góður afli Þerneyjar RE í norsku lögsögunni

Frystitogarinn Þerney RE hefur nú verið að veiðum í norskri lögsögu um rúmlega þriggja vikna skeið og að sögn skipstjórans, Kristins Gestssonar, hefur aflinn verið góður og þorskurinn mjög vænn. Kvóti skipsins í veiðiferðinni er um 900 tonn af þorski og því til viðbótar má veiða 30% af öðrum tegundum.

,,Við erum á Lófótensvæðinu, nánar tiltekið á Röstbankanum, og hér eru þrjú önnur íslensk skip að veiðum. Veiðarnar hafa gengið mjög vel, þ.e.a.s. þegar viðrar til veiða, og það þarf ekki að toga lengi til að fá 10 til 12 tonna hol. Það er það aflamagn sem hentar best fyrir vinnsluna hverju sinni og fer best með fiskinn," segir Kristinn en er rætt var við hann nú síðdegis var kominn stormur og glórulaus stórhríð á miðunum.

,,Við erum núna að fá skilin, sem gengu yfir Siglufjörð í nótt sem leið, hingað norður. Það eru meira en 20 m/s en mér sýnist að veðrið muni ganga hratt niður og sennilega verður komið besta veður í kvöld," segir Kristinn.

Röstbankinn er hluti af vetrarvertíðarsvæði Norðmanna og Kristinn segir stærðina á þorskinum taka mið af því.

,,Meðalvigtin er örugglega meiri en sex kíló og þessi stóri þorskur hefur sett okkur í dálítinn vanda með stillingarnar á flökunarvélunum. Það hefur þurft að handflaka stærsta þorskinn og það hefur einn maður stöðugt verið í handflökun allan túrinn," segir Kristinn en hann upplýsir að í raun sé það bara vinnslugetan um borð sem stýri veiðunum. Afkastagetan í vinnslunni er um 40 til 50 tonn af fiski upp úr sjó og það hefur ekki þurft annað en að toga í stuttan tíma í einu til að ná því aflamagni. Þó nokkur ýsugengd er á veiðisvæðinu en hlutfall hennar, sem aukaaafli með þorskinum, hefur verið innan marka að sögn Kristins. Hann reiknar með því að kvóta skipsins í norsku lögsögunni verði náð um helgina og í framhaldinu tekur við þriggja og hálfs sólarhringa sigling til heimahafnar í Reykjavík.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir