FréttirSkrá á póstlista

18.03.2014

Mun minni loðnuafli en vinnsla til manneldis gekk mjög vel

Loðnuafli skipa HB Granda á nýafstaðinni vertíð var alls tæplega 24.000 tonn. Þetta eru mikil viðbrigði frá vertíðinni í fyrra en þá voru skipin alls með um 86.000 tonna afla. Stafar þetta af mun lægri heildarkvóta nú en þá. Vonir voru bundnar við vestangöngu loðnu, sem fyrst varð vart við út af Ísafjarðardjúpi undir lok vertíðarinnar, en mælingar Hafrannsóknastofnunar gáfu til kynna að magnið væri ekki það mikið að ástæða væri til að auka við kvótann.

Að sögn Garðars Svavarssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hófst vertíð skipa félagsins þann 11. janúar sl. og var lokið við að veiða úthlutaðan kvóta réttum tveimur mánuðum síðar.

,,Að venju var áhersla lögð á að nýta aflann sem best til manneldis og tókst það afar vel í ár. Heilfryst var fyrir Rússlands- og Japansmarkað auk þess sem unnin voru loðnuhrogn fyrir kaupendur í A-Evrópu og Asíu,“ segir Garðar Svavarsson.

Mikill hraði á loðnugöngunni

Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, segir að það sé aldrei hægt að ganga að neinu gefnu þegar loðnuveiðin sé annars vegar. Hins vegar hafi vertíðin nú verið óvenju erfið, kvótinn lítill og slæmt tíðarfar hafi ekki bætt úr skák.

,,Það, sem kom manni e.t.v. mest á óvart, var hve loðnan gekk dreift með landinu, hve mikill hraði var á göngunni eftir að hún kom að SA-landi og hve veiðin varð endaslepp í vertíðarlok. Við hófum veiðarnar fyrir Norðurlandi í janúar og mun vestar en við höfum átt að venjast. Trollhólfið var stækkað til vesturs og við hófum veiðar austan við Kolbeinseyjarhrygginn. Hluti af loðnunni gekk inn í trollhólfið en það er greinilegt að eitthvað af göngunni fór mun grynnra suður af hólfinu og dreift með landinu. Fyrir austan Vopnafjörð hvarf svo gangan og það var engin veiði úti af Austfjörðum. Það var ekki fyrr en fyrir vestan Ingólfshöfða að loðnan kom svo aftur í leitirnar auk þess sem einhver skip fengu í framhaldi af því veiði á Hrollaugseyjasvæðinu,“ segir Albert en að hans sögn gekk loðnan svo ótrúlega hratt vestur með ströndinni.

,,Það hafa verið ríkjandi austlægar áttir og manni dettur helst í hug að fallastraumurinn með ströndinni hafi verið svona stífur. Það tók loðnuna örskamman tíma að ganga vestur fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa. Við fórum í fyrsta hrognatúrinn okkar að svæðinu út af Malarrifi suður af Snæfellsjökli og þá lóðaði alls staðar á loðnu á stóru svæði. Næst þegar við komum út var loðnan horfin norður fyrir Öndverðarnes þar sem hún var fljót að dreifa sér. Vertíðarlokin voru hjá okkur út af Ísafjarðardjúpi og svo í Nesdjúpinu. Þar voru ágætar lóðningar og þokkalegar torfur en svo var kvótinn búinn. Mér skilst af skipstjórum þeirra skipa, sem héldu veiðum áfram, að veiðin við sunnanvert Snæfellsnes hafi ekki verið svipur hjá sjón ef miðað er við undanfarin ár. Þótt loðnan sé búin að hrygna þá hafa skipin jafnan getað fengið hæng á þeim slóðum í einhvern tíma að aflokinni hrygningu. Það brást í ár,“ segir Albert Sveinsson.

Kolmunnaveiðar að hefjast

Segja má að loðnuvertíðin hafi fjarað út frá og með 10. mars sl. og lítið hefur veiðst eftir þann tíma. Útgerðir uppsjávarveiðisskipanna eru því farnar að huga að kolmunnaveiðum. Reiknað er með því að Ingunn AK haldi til veiða í kvöld og Lundey NS og Faxi RE fylgi svo í kjölfarið á næstu dögum. Kolmunnaveiðar fara nú fram um 250 sjómílur vestur af Írlandi og hafa aflabrögð verið ágæt síðustu vikur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir