FréttirSkrá á póstlista

13.03.2014

Góður afli og búnaðurinn virkar vel

Nokkur reynsla er nú komin á útgerð Helgu Maríu AK sem ísfisktogara en skipið var áður gert út sem frystitogari. Að sögn Eiríks Ragnarssonar skipstjóra hefur sá búnaður, sem settur var í skipið, virkað mjög vel og það sé helst flokkarinn, sem mest hefur verið notaður til að flokka ufsa, sem tekið hafi tíma að ná tökum á.

,,Við erum búnir að fara tíu veiðiferðir frá áramótum. Aflinn hefur verið með ágætum, þrátt fyrir mjög rysjótt tíðarfar, og það hefur gengið vel að veiða þorsk og gullkarfa. Ufsinn hefur verið erfiðari viðureignar en mér skilst þó á mönnum að veiðin sé heldur tekin að glæðast,“ segir Eiríkur en hann var í fríi í síðasta túr.

Um reynsluna af notkun búnaðarins, sem settur var í Helgu Maríu, eftir komuna hingað heim frá Póllandi, þar sem skipinu var breytt úr frystitogara í ísfisktogara, segir skipstjórinn:

,,Það fór nokkur tími í að fínstilla færiböndin og annan búnað í fiskmóttökunni en kælingin á aflanum hefur virkað einstaklega vel. Það eina, sem vafist hefur fyrir okkur, er flokkarinn. Við eigum enn eftir að ná betri tökum á honum og þeim flókna tölvubúnaði sem honum stýrir,“ segir Eiríkur.

Það eru töluverð viðbrigði fyrir skipstjórann á Helgu Maríu að stjórna nú ísfiskskipi í stað frystitogaramennskunnar sem hann hefur sinnt undanfarna áratugi

,,Ég kann alls ekki illa við þetta hlutskipti en reynslan er þó það stutt að ég á erfitt með að leggja mat á hvort hentar mér betur. Ég leyni því ekki að það er meira stress sem fylgir þessum stuttu veiðiferðum. Á frystitogurunum var alltaf hægt að ná góðri veiðiferð þótt það væri þriggja daga bræla en á ísfisktogurunum getur slík bræla hreinlega spillt veiðiferðinni. Það hafa verið slæmar brælur í vetur. Mér finnst lægðirnar vera krappari en oftast áður og vindstyrkurinn meiri. Þrátt fyrir það hafa aflabrögðin verið með ágætum þá daga sem á annað borð hefur verið hægt að stunda veiðar,“ segir Eiríkur Ragnarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir