FréttirSkrá á póstlista

07.03.2014

Loðnuveiðum skipa HB Granda að ljúka

Tvö uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú á loðnumiðunum út af Ísafjarðardjúpi og það þriðja er á leiðinni þangað. Ljóst er að þetta verður síðasta loðnuveiðiferð skipanna á vertíðinni nema ný, stór ganga skili sér á miðin.

Öll þrjú skipin hafa fengið afla einu sinni úr vestangöngunni sem vart varð við út af Ísafjarðardjúpi í byrjun vikunnar. Ingunn AK fór með um 900 tonna afla til Vopnafjarðar fyrr í vikunni og Lundey NS og Faxi RE lönduðu alls um 1.600 tonnum á Akranesi. Þótt loðnan væri smærri en sú sem veiðst hafði við Snæfellsnes og hrognafyllingin ekki eins mikil var hægt nýta farmana til hrognatöku og frystingar á hrognum á Vopnafirði og Akranesi.

,,Vissulega var þroski hrognanna minni í þessari loðnu, sem veiddist í vikunni, en í hrognunum sem við vorum að frysta í síðustu viku. Þrátt fyrir það hentuðu þau vel til frystingar,“ sagði Gunnar Hermannsson, verkstjóri í loðnuhrognavinnslu HB Granda á Akranesi, er rætt var við hann í dag. Hann sagði að enn væri verið að vinna hrogn úr loðnunni sem Faxi kom með til Akraness og frystingu á þeim lyki ekki fyrr en aðra nótt.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði, segir að þar sem að áta hafi verið í loðnunni sem Ingunn kom með hafi hún ekki hentað til heilfrystingar. Hrognin hafi þó verið með nægilegum þroska til að hægt væri að nýta aflann til hrognatöku og frystingar.

,,Þetta er búin að vera þokkalegasta vertíð. Heildarkvótinn var reyndar ekki mikill en það hefur gengið mjög vel að nýta okkar hlut til vinnslu á afurðum til manneldis,“ sagði Magnús Róbertsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir