FréttirSkrá á póstlista

04.03.2014

Vonir bundnar við vestangönguna

Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með hátt í 900 tonn af loðnu sem fékkst í tveimur köstum í dag út af Ísafjarðardjúpi. Grænlenska skipið Polar Amaroq fékk þar gott kast í gærkvöldi og í kjölfarið hefur skipum fjölgað ört á svæðinu. Skipstjórnarmenn binda vonir við að þarna sé á ferðinni loðna úr svokallaðri vestangöngu enda er hrognafyllingin mun minni en var í loðnunni sem veiðst hefur út af Malarrifi út af Snæfellsjökli upp á síðkastið.

,,Það er ómögulegt að meta hve mikið magn af loðnu þarna er á ferðinni en þar, sem við vorum að veiðum, voru góðar lóðningar,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, er rætt var við hann síðdegis í dag. Ingunn var þá nýfarin af miðunum.

,,Við fórum frá Akranesi í gær og vorum komnir á veiðisvæðið í morgun. Veiðin var því góð í dag og það er greinilegt að loðnan þarna norður frá er komin annars staðar frá en loðnugangan sem við höfum verið að veiða úr síðustu vikur. Þetta er smærri loðna og hrognafyllingin er ekki áætluð nema um 17-18% á meðan loðnan við Snæfellsnesið var búin að hrygna og það eina sem fengist hefur síðustu daga er karlsíli,“ segir Guðlaugur Jónsson.

Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, tekur í svipaðan streng og Guðlaugur en bætir því þó við að svo virðist sem að mokveiði hafi verið á miðunum úti af Ísafjarðardjúpi í dag.

,,Það er allur flotinn hér og það virðast allir vera að fá góða veiði. Loðnan veiðist á nokkuð stóru svæði og inn á milli eru mjög stórar lóðningar,“ segir Arnþór en er rætt var við hann var verið að dæla loðnu úr seinna kasti dagsins í kælilestar skipsins. Áætlaður afli er svipaður og hjá Ingunni eða 800 til 900 tonn.

Í fyrra kom einnig loðnuganga að vestan en munurinn þá og nú er sá að ekki varð vart við loðnuna fyrr en hún var komin suður í Breiðafjörð. Arnþór segir að loðnan, sem veiddist í dag, sé með þannig hrognafyllingu að þó nokkuð sé í að hún hrygni.

,,Ég geri ráð fyrir því að við förum á Vopnafjörð með aflann en það skýrist fljótlega. Ég hef grun um að það sé áta í loðnunni og það er því ekki víst að hún henti vel til frystingar. Það á þó eftir að koma í ljós,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir