FréttirSkrá á póstlista

28.02.2014

Afkoma HB Granda hf. árið 2013

• Rekstrartekjur samstæðunnar árið 2013 voru 195,0 m€, en voru 197,3 m€ árið áður 
• Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 45,3 m€ (23,2%) en var 59,3 m€ (30,0%) árið áður 
• Hagnaður ársins var 35,4 m€ en var 14,9 m€ árið áður 

Rekstur ársins 2013

Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2013 námu 195,0 m€, samanborið við 197,3 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og virðisrýrnun (EBITDA) var 45,3 m€ eða 23,2% af rekstrartekjum, en var 59,3 m€ eða 30,0% árið áður.  Bakfærð er virðisrýrnun aflaheimilda að fjárhæð 13,6 m€ og gjaldfærð virðisrýrnun rekstrarfjármuna að fjárhæð 4,9 m€.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 1,4 m€, en voru neikvæð um 3,8 m€ árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,8 m€, en voru neikvæð um 4,5 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 43,8 m€, samanborið við hagnað að fjárhæð 18,4 m€ árið áður.  Tekjuskattur að fjárhæð 8,4 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum.  Hagnaður ársins varð því 35,4 m€ en var 14,9 m€  árið áður. 

Meðalfjöldi ársverka árið 2013 var 828 en var 844 árið 2012.  Laun og launatengd gjöld námu samtals 58,3 m€, samanborið við 58,3 m€ árið áður (9,4 milljarðar króna samanborið við 9,3 milljarða árið áður).

Laugafiskur ehf. er hluti af samstæðureikningi HB Granda hf. frá 1. júlí 2013 og reikningsskil Vignis G. Jónsonar ehf. eru hluti af samstæðureikningnum frá 12. nóvember 2013.  Tekjur félaganna frá kaupdegi til ársloka námu 4,8 m€ og hagnaður nam 0,6 m€ fyrir sama tímabil.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 336,3 m€ í árslok 2013. Þar af voru fastafjármunir 271,4 m€ og veltufjármunir 64,9 m€.  Eigið fé nam 203,5 m€ og var eiginfjárhlutfall 60,5%, en var 55,6% í lok árs 2012. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 132,8 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 43,1 m€ árið 2013, en var 42,6 m€ árið áður.  Fjárfestingar námu 22,7 m€.  Fjármögnunarhreyfingar námu 16,8 m€.  Handbært fé hækkaði því um 3,6 m€ og var í árslok 12,3 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2013 (1 evra = 161,93 isk) verða tekjur 31,6 milljarðar króna, EBITDA 7,3 milljarðar og hagnaður 5,7 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2013 (1 evra = 158,06 isk) verða eignir samtals 53,1 milljarðar króna, skuldir 21,0 milljarðar og eigið fé 32,2 milljarðar.

Skipastóll og afli

HB Grandi hf. gerir út 10 fiskiskip í árslok.  Á árinu var gengið frá samkomulagi um endurnýjun uppsjávarflota félagsins, ásamt því að ákveðið var að leggja uppsjávarskipinu Víkingi.  Á árinu var lokið við að breyta frystitogaranum Helgu Maríu í ísfiskskip, jafnframt var frystitogarinn Venus seldur í árslok.    

Árið 2013 var afli skipa félagsins 53 þúsund tonn af botnfiski og 135 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Aðalfundur

Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 21. mars í matsal félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00.

Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2014 verði vegna rekstrarársins 2013 greidd 1,50 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 2.720 millj. kr. (um 17,2 millj. evra á lokagengi ársins 2013), sem samsvarar 8,6% af eigin fé eða 6,8% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2013.  Arðurinn verði greiddur 25. apríl 2014.  Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 21. mars 2014 og arðleysisdagur því 24. mars 2014.

Arðsréttindadagur er 26. mars 2014 (arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá að loknu uppgjöri Verðbréfaskráningar Íslands fyrir kl. 12:00 þann 26. mars 2014)

Fjárhagsdagatal

Aðalfundur                               21. mars 2014

Birting ársskýrslu                      21. mars 2014

Arðgreiðsludagur                      25. apríl 2014

Hálfsársuppgjör                        27. ágúst 2014

Þriðji ársfjórðungur                    26. nóvember 2014

Ársuppgjör 2014                       25. febrúar 2015

Nýjustu fréttir

Allar fréttir