FréttirSkrá á póstlista

21.02.2014

Loðnuhrognataka hófst á Akranesi í morgun

Skurður á loðnu og hrognataka hófst hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi í morgun. Þá var byrjað að vinna úr um 1.000 tonna afla Lundeyjar NS sem fékkst á Faxaflóa í tveimur köstum í gær.

,,Loðnuhrognin líta mjög vel út. Hrognafyllingin í loðnunni í þessum farmi er um 23% og þroski hrognanna er um 70 til 75%. Það er því ekki eftir neinu að bíða,“ segir Gunnar Hermannsson sem haft hefur umsjón með loðnuhrognavinnslunni á Akranesi undanfarin ár. Hann segir að hrognafrysting ætti að geta hafist á morgun en áður en frysting hefst þarf að hreinsa hrognin.

Nokkur skip eru nú að veiðum út af Malarrifi á sunnanverðu Snæfellsnesi og kom Faxi RE á miðin um hádegisbilið í dag. Stutt sigling er af miðunum í Faxaflóa til Akraness. Um 100 manns munu ganga vaktir í loðnuhrognavinnslunni á meðan vinnslu stendur en líkt og fyrr þá veit enginn hve það verður í marga daga að þessu sinni. Framhaldið ræðst af því hve mikið verður leyft að veiða, tíðarfari og því hvenær loðnan hrygnir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir