FréttirSkrá á póstlista

18.02.2014

Fremsti hluti loðnugöngunnar kominn vestur fyrir Reykjanes

Faxi RE kom til Vopnafjarðar í nótt sem leið með um 870 tonna loðnuafla sem fékkst í fimm köstum vestan við Þorlákshöfn. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra er fremsti hluti loðnugöngunnar kominn vestur fyrir Reykjanes. Þá lóðar víða á loðnu við suðurströndina allt austur að Ingólfshöfða og þar fyrir austan varð áhöfnin á Faxa vör við stakar lóðningar austur að Djúpavogi.

,,Aðstæður, þegar við vorum að veiðum, voru frekar erfiðar. Sjólag var reyndar gott en straumar voru erfiðir. Þá gerði það okkur erfitt fyrir að á því svæði, þar sem við vorum að veiðum, að loðnan gekk mjög grunnt upp á harðan botn. Dýpið var ekki meira en 20 til 25 faðmar og það var ekki hættandi á að kasta nótinni á hana á þessum karga. Við héldum okkur því dýpra og köstuðum á minni lóðningar,“ segir Albert.

Að sögn Alberts er loðnan mjög vel á sig komin. Sýni, sem tekin voru um borð, benda til þess að hrognafyllingin sé 19 til 22%. Fyrir vestan Reykjanes hefur fengist loðna með um 24% hrognafyllingu. Það segir þó ekki alla söguna um það hvenær hrognataka og frysting á loðnuhrognum getur hafist því það er fyrst og fremst þroski hrognanna sem horft er til.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir