FréttirSkrá á póstlista

15.02.2014

Mokveiði við Vestmannaeyjar í gær

Fremsti hluti loðnugöngunnar er nú kominn vel vestur fyrir Vestmannaeyjar. Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey NS, var mokveiði við Eyjar í gær en þá var komið gott veður á miðunum. Lítið var að hafa í brælunni dagana á undan.

,,Við byrjuðum við Ingólfshöfðann og þar var sama og ekkert að gerast annað en haugabræla og leiðindaaðstæður. Við fengum svo fréttir af því að loðna væri að veiðast við Eyjar og sigldum þangað, köstuðum tvisvar og fengum 480 tonn í öðru kastinu og um 260 tonn í hinu. Alls er aflinn í veiðiferðinni um 950 tonn,“ sagði Arnþór en er rætt var við hann var Lundey á leiðinni til Vopnafjarðar og ætti skipið að verða í höfn síðdegis í dag.

Arnþór segir loðnuvertíðina nú vera allt öðru vísi en menn hafi átt að venjast undanfarin ár.

,,Fyrir það fyrsta þá hefur verið leiðindaveður á miðunum það sem af er ári. Á fimmtudaginn var veðrið þannig að menn urðu að halda sjó eða leita vars vegna austanbrælu. Í öðru lagi þá varð eiginlega ekkert vart við loðnu fyrr en við fengum veiði út af Skarðsfjöru og Ingólfshöfða og þá má nefna að það er engin veiði á nóttunni. Það þýðir ekki að reyna veiðar fyrr en birta tekur af degi,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Óhætt er að taka undir það með Arnþóri að hegðun loðnunnar að þessu sinni er ólík því sem menn eiga að venjast. Undanfarin ár hefur oft ágæt veiði fengist í flottroll fyrir NA-landi framan af ári. Síðan hefur loðnan ekki gefið sig úti af Austfjörðum fyrr en hún hefur gengið upp á grunnin vel fyrir austan Hornafjörð. Að þessu sinni hefur ekki orðið vart við loðnu í veiðanlegu magni á þeim slóðum og það var fyrst út af Skeiðarársandi að skipin fóru að fá einhvern afla að ráði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir