FréttirSkrá á póstlista

13.02.2014

Nýr búnaður til vinnslu á mjöli og lýsi tekinn í notkun á Akranesi

Ný vinnslulína fyrir afurðir, sem til falla við bolfiskvinnslu HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík, verður tekinn í notkun í fiskmjölsverksmiðju félagsins á Akranesi á næstu dögum. Um er að ræða þriðju framleiðslulínuna í verksmiðjunni en fyrir eru tvær sem notaðar eru til bræðslu á uppsjávarfiski. Nýja framleiðslulínan notar gufu frá rafskautskatli í stað olíukynnts gufuketils en eins og staðan er nú hefur HB Grandi tryggt 2,5 MW af raforku til framleiðslunnar. Það svarar til um 15-20% orkuþarfarinnar ef öll verksmiðjan væri keyrð á fullum afköstum.

Almar Sigurjónsson, rekstrarstjóri fiskmjölsverksmiðja HB Granda hf, segir afkastagetu nýju framleiðslulínunnar verða um 55 tonn af hráefni á sólarhring.

,,Það hefði vissulega verið hægt að vinna það magn með þeirri framleiðslulínu sem við höfðum fyrir hér í verksmiðjunni en magnið er samt það lítið að það myndi aldrei svara kostnaði að setja stóru verksmiðjuna í gang fyrir svo lítið magn, þar að auki viljum við vinna hráefnið sem ferskast og nota sem mest af innlendri orku “ segir Almar.

Nýja framleiðslulínan hefur verið í uppsetningu að undanförnu en meðal þess búnaðar, sem kaupa þurfti, er sjóðari, pressa, eimingartæki og mjölvinda.

,,Við stefnum að því að hefja framleiðslu nú á næstu dögum. Áætlað hráefnismagn sem til fellur við vinnsluna í Norðurgarði er um 10 þúsund tonn á ári. Mjölið og lýsið á að henta vel til fóðurgerðar enda verður ferskleiki í hámarki og saltinnihald afurðanna í lágmarki. Við reiknum með að fá tvo til þrjá bílfarma á dag og það ætti að tryggja að hér verði hægt að stunda vinnslu fimm daga vikunnar á vöktum í 16 til 18 tíma á dag,“ segir Almar en hann upplýsir að hráefnið verði flutt frá Reykjavík til Akraness í sérútbúnum tönkum sem gerðir voru fyrir þessa flutninga hjá Þorgeir og Ellert ehf. á Akranesi.

Fyrstu skrefin í rafvæðingu verksmiðjunnar

Að sögn Almars eru fyrstu skrefin í rafvæðingu fiskmjölsverksmiðjunnar á Akranesi tekin samhliða uppsetningu á hinni nýju framleiðslulínu.

,,Við erum búnir að tryggja okkur 2,5 MW af raforku. Rafmagnið fáum við frá aðveitustöð sem er í Sementsverksmiðjunni en vandinn er sá að dreifikerfið fyrir raforku hér í bænum er ekki meira en sex kílóvolt eins og staðan er nú. Raforkan nú verður notuð til að knýja nýja gufuketilinn en gufan er nýtt fyrir sjóðarann og þurrkarann í nýju línunni. Kosturinn við að nota rafmagn í stað olíu er ótvíræður. Bara sú breyting sparar verulega fjármuni, auk þess sem það verður mun auðveldara að stýra framleiðslunni. Það tryggir jafnari og betri afurðir,“ segir Almar.

Talið er að orkuþörf fiskmjölsverksmiðjunnar á Akranesi miðað við full afköst sé um 15 til 16 MW og Almar segist vonast til að eftir tvö til þrjú ár, þegar Orkuveitan verður búin að setja upp nýja aðveitustöð, verði hægt að stíga skrefið yfir í rafvæðingu verksmiðjunnar til fulls. Hann segir að vegna tengingarinnar við aðveitustöðina í Sementsverksmiðjunni hafi verið grafin 700 metra strengur í jörð frá fiskmjölsverksmiðjunni. Í strengstæðið voru auk þess lagðir strengir í hluta leiðarinnar sem nýtast munu til aukinna raforkuflutninga í framtíðinni.

Undanfarin ár hefur fiskmjölsverksmiðjan á Akranesi jafnan aðeins verið í fullri starfsemi á meðan loðnuhrognatöku stendur. Þess utan hefur verið rólegt yfir starfseminni. Þrátt fyrir það eru tíu starfsmenn fastráðnir við verksmiðjuna allt árið og hafa þeir nýtt tímann til að sinna viðhaldi og ýmsum endurbótum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir