FréttirSkrá á póstlista

11.02.2014

Fyrsta bolfisklöndunin á Akranesi í tæp sex ár

Í dag hefur verið unnið að löndun á afla úr ísfisktogaranum Sturlaugi H. Böðvarssyni AK á Akranesi en togarinn kom til hafnar í gærkvöldi. Um töluverð tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta skipti í tæplega sex ár sem bolfiski frá togurum HB Granda er landað á Akranesi.

Að sögn Lofts Bjarna Gíslasonar, útgerðarstjóra ísfisktogara HB Granda, hefur bolfiski ekki verið landað úr skipum félagsins á Akranesi frá því 31. maí árið 2008. Þá líkt og nú kom Sturlaugur H. Böðvarsson með aflann.

,,Sturlaugur var að veiðum á Austfjarðarmiðum í síðustu veiðiferð og aflinn er tæplega 90 tonn af þorski. Öll okkar þorskvinnsla fer fram í fiskiðjuverinu á Akranesi og þar hafa verið unnin 100 til 200 tonn á viku. Magnið er misjafnt eftir árstímum og á undanförnum árum hefur öllum þorskafla verið ekið frá Reykjavík til Akraness. Við teljum að hagræði geti skapast við að landa aflanum á Akranesi og við gerum okkur vonir um að framhald geti orðið á löndunum ísfisktogara okkar þar,“ segir Loftur Bjarni Gíslason.

Þess má geta að nú starfa um 100 manns hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi en þegar umsvifin voru minnst var starfsmannafjöldinn kominn niður í um 20 manns.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir