FréttirSkrá á póstlista

10.02.2014

HB Grandi í rúmlega 12% aflahlutdeild

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu reiknast aflahlutdeild HB Granda nú yfir 12% samanlagðs heildarverðmætis aflalhutdeilda allra tegunda. Vegna þessa þykir stjórnendum félagsins rétt að taka fram að engar breytingar hafa átt sér stað á aflahlutdeildum HB Granda undanfarin átta ár. Þrátt fyrir það hefur aflahlutdeild félagsins hækkað úr 10,6% í 12,29%.

Helsta ástæða þess að hlutdeildin fór úr 11,95% á sama tíma í fyrra í 12,29% nú er að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, verðlækkun á þorski haustið 2012. Við það hækkuðu stuðlar á til dæmis karfa. Þess má geta að þorskígildisstuðull á úthafskarfa er nú 1,25 en var 0,51 fiskveiðiárð 2005-2006.

Fiskistofa hefur gefið út þorskígildisstöðu útgerðarfélaga tvisvar á ári. Vilhjálmur segir að við næsta útreikning Fiskistofu muni félagið að óbreyttu reiknast undir leyfilegum 12%, sem er hámark þess sem eitt og sama félagið má ráða yfir af úthlutuðu heildaraflamarki ársins. Ástæða þess er sú að verð á þorski hefur styrkst aftur en auk þess er fastlega gert ráð fyrir auknum þorskkvóta á næsta fiskveiðiári sem mun minnka heildarhlutdeild félagsins enn frekar. Verðtímabilið sem lagt er til grundvallar þorskígildisstuðlum yfirstandandi fiskveiðiárs er frá 1.5.2012 til 30.4.2013. Að öllu öðru óbreyttu en 10% meiri þorskkvóta á þessuyfirstandandi fiskveiðiári er hlutdeildin 12%.

Þess má geta að aðrir þorskígildisstuðlar eru nýttir til útreiknings veiðigjalds og samkvæmt þeim er hlutdeild HB Granda nú 11,59%.

Félagið hefur samkvæmt lögum sex mánuði til að bregðast við. Vilhjálmur segir ekki annað standa til en að fara að lögum en hann efast um að löggjafinn ætlist til þess að félaginu sé gert að hreyfa aflahlutdeild sína einungis vegna áður nefndra verðbreytinga. Verðbreytinga sem í þessu tilfelli komu í kjölfar aukins kvóta á þorski í Barentshafi og eru að hluta til gengnar til baka.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir