FréttirSkrá á póstlista

08.02.2014

Leitað að loðnu á Eyjafirði og við SA-land

Nokkur íslensk skip eru farin til loðnuleitar að nýju eftir að fréttir bárust af því að vart hefði orðið við loðnu á veiðislóð undan Suð-Austurlandi og eins í mynni Eyjafjarðar. Einhver loðnuafli fékkst út af Skeiðarársandi í gær og nótt en loðnan í Eyjafirðinum er það dreifð að hún kemur varla fram á mælum.

Lundey NS er nú við loðnuleit í Eyjafirði en skipið kom þangað frá Vopnafirði í gærkvöldi. Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey, segir að það sé vissulega loðna í firðinum en hún sé ekki í veiðanlegu magni.

,,Þetta kemur fram á mælum sem smá ,,ryk“, ef það mælist eitthvað á annað borð, og það hefur ekki verið ástæða til að reyna veiðar. Reyndar erum við bara með djúpnótina og hún myndi henta illa hér inni í firðinum. Við höfum farið inn fyrir Hrísey og út aftur og þar sem við erum núna, út af Ólafsfjarðarmúlanum, er 60 faðma dýpi,“ segir Arnþór en hann segir óvissu ríkja um framhaldið.

,,Það er reyndar vitlaust veður hér þessa stundina, 15-17 m/s af norðri, og mér finnst líklegast að við notum tækifærið og leitum hér fyrir utan áður en við höldum vestur fyrir land til Reykjavíkur þar sem grunnnótin verður tekin um borð.“

Arnþór segir að tvö norsk skip hafi verið við loðnuleit í Eyjafirðinum í gær en þau séu sennilega farin inn til Akureyrar. Stór floti norskra skipa hefur leitað að loðnu út af Austfjörðum en án árangurs og nú er bara vika þar til að heimild þeirra til loðnuveiða á Íslandsmiðum rennur út.

Faxi RE er nú á austurleið og ætti að vera kominn að svæðinu út af Skeiðarársandi fyrir hádegi. Þar eru nú fjögur íslensk skip og eitt grænlenskt og að sögn Arnþórs munu a.m.k. tvö skipanna hafa fengið 300 til 400 tonna afla.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir